Innlent

Þingmaður fór á ráðstefnu UN Women á eigin kostnað

Snærós Sindradóttir skrifar
Þorsteini Sæmundsson varð fyrir miklum áhrifum af kvennafundi Sameinuðu þjóðanna í mars.
Þorsteini Sæmundsson varð fyrir miklum áhrifum af kvennafundi Sameinuðu þjóðanna í mars. vísir/vilhelm
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, ákvað upp á sitt eindæmi að fara á 60. fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í mars. Þetta ákvað hann þegar í ljós kom að Alþingi ætlaði ekki að senda  fulltrúa á ráðstefnuna. Yfirskrift fundarins var „Valdefling kvenna og sjálfbær þróun“.

„Ég hef verið að ræða ýmis mál á þingi sem snerta konur, meðal annars kynferðisofbeldi, starfsemi kampavínsklúbba, heimilisofbeldi og ýmist annað. Þegar ég frétti af þessu þingi þá vildi ég gjarnan fara og sjá hvað heimurinn er að hugsa,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn greindi sjálfur frá þessari ferð á fundi Alþingis í gær og vísaði til þess að Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar, hafði spurt um ferðina að Þorsteini fjarstöddum. „Nú var það ekki ætlan mín á þeim tíma að upplýsa alla þjóðina um að ég væri þar á eigin reikning og konan mín með mér,“ sagði Þorsteinn á þingfundi og bætti við: „Ég var eini þingmaður Íslendinga þarna og ég vil beina því til þingmanna sem hafa brennandi áhuga á því málefni að það er alveg þess virði að eyða svolitlu af peningum sínum til að vera þarna og taka þátt í því merka starfi sem þar fer fram.“

Þorsteinn segir í samtali við Fréttablaðið að það hafi verið mikil upplifun að sitja þingið. „Ef eitthvað er hefði ég viljað vera enn betur skipulagður en ég var til að geta komist yfir meira. Það voru alls konar viðburðir og hlutir að gerast sem var mjög áhugavert og eiginlega nauðsynlegt að upplifa.“

Hann segir það synd að Alþingi hafi ekki sent  þingmann á ráðstefnuna. Sjálfur hafi hann vakið máls á því á fundi forsætisnefndar Alþingis. „Ég hvatti til þess að við myndum senda þingmenn framvegis, helst úr öllum flokkum, því þetta er gríðarmerkilegt.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×