Menning

Þetta fólk er eins konar sorphaugur angistar okkar

Magnús Guðmundsson skrifar
Birgir Snæbjörn Birgisson fyrir framan verk sitt Von í Sverrissalnum í Hafnarborg.
Birgir Snæbjörn Birgisson fyrir framan verk sitt Von í Sverrissalnum í Hafnarborg. Visir/Vilhelm
Ljóshærðar starfsstéttir, Ljóshærð ungfrú heimur 1951 og Ljóshærðir listamenn og Auðmýkt eru á meðal fjölmargra verka myndlistarmannsins Birgis Snæbjörns Birgissonar. En í dag verður opnuð í Sverrissal Hafnarborgar sýningin Von, en þar sýnir listamaðurinn portrett af þingmönnunum 63 sem settust á þing eftir kosningarnar 2013 og einum að auki undir yfirskriftinni Von. Í verkinu birtast myndir af kjörnum fulltrúum þjóðarinnar sem sýna þá alla í sama ljósi sem eina órofa heild. Sýningarstjóri er Mika Hannula en hann hefur starfað með Birgi síðan 2002.

Vonin er frábær

Birgir segir að hér séu á ferðinni verk sem eru búin að vera í vinnslu í tvö ár. „Kveikjan að verkinu er það sem á að vera hlutverk myndlistarinnar: Að vera með viðbragð við því sem er að gerast í samfélaginu. Þarna í upphafi árs 2015 fannst mér eðlilegt að vera með viðbragð við ástandinu og byrja á þessu, sem var nú hálfgert tabú, að mála íslenska þingheiminn eða lýðræðið. Þetta eru 63 plús 1 á portrettunum sem skýrist af því að það kemur þarna inn utanþingsráðherra, en núna erum við með ástand sem er í raun 63 plús 2. En þessi aukamaður vísar líka til þess að ástandið er óstöðugt um leið og það vísar til framtíðar að einhverju leyti. Vonin er stundum það eina sem við eigum. Vonin er frábær út af fyrir sig og við höldum í hana en það er að sama skapi auðvelt að glata henni.“

Hluti af verki Birgis Snæbjörns í Hafnarborg en verkið er allt á einum vegg.Visir/Vilhelm
Ratleikur í leiðinni

Birgir hefur áður unnið með ljóskuna sem útlitslegan samnefnara og út frá ljósri litanálgun. Hann segist hafa kosið að vera trúr sinni litapallettu og því geri hann alla þarna ljóshærða og bláeyga. „Það verður svo hver og einn áhorfandi að gera það upp við sig hvað ég er að meina með því, en ég vil nú meina að við séum öll meira og minna ljóshærð og bláeygð innst inni. Það kannski lýsir sér í því að stundum finnst okkur þingið vera ljóshært og bláeygt en ég held að við séum það nú sjálf í leiðinni. Við gerum alveg óskaplegar kröfur til þess fólks og þau eru svona oft og tíðum eins konar sorphaugur angistar okkar. En þau eru líka samnefnari okkar, fólk eins og við og við skulum muna að aðgát skal höfð í nærveru sálar.“

Birgir leggur áherslu á að í þessu verki er hann ekki að gera eiginleg portrett af þessum einstaklingum, heldur fremur því sem þeir standa fyrir. „Í þessu tilviki reyni ég að afmá ákveðin persónueinkenni með því að gera alla ljósa en það gerir þetta líka að skemmtilegum ratleik í leiðinni.“

Að bregðast við

Birgir hefur haft á orði að hlutverk myndlistarinnar væri að bregðast við samtímanum, hann segist telja það vera einn af góðum eiginleikum samtímamyndlistar. „Samtímalist verður að vera í samtali við sinn samtíma. Það er það sem skilgreinir hana.

Vettvangurinn hefur breyst mikið síðastliðin ár vegna þess að eftir hrun erum við hætt að trúa á grunnstoðir samfélagsins. Þess vegna segi ég oft að tími yfirlýsinganna sé liðinn. Það þýðir ekkert lengur að hrópa og kalla heldur þurfum við nú að nálgast verkefnin með nýjum og spennandi hætti. Þannig að ég er hissa á því að það séu ekki allir að gera list sem er í tengslum við samtímann og ekki bara samtímann heldur samtal dagsins í dag.

Þá komum við að tímasetningunni sem er að einhverju leyti tilviljun, en þó ekki, í þessu tilviki þar sem það eru kosningar til Alþingis handan við hornið. Þegar ég byrjaði á þessu verki í upphafi árs 2015 var mér boðin þátttaka í sýningu um mitt sumar í Helsinki. Sýningin snerist að einhverju leyti um vonina og ég kaus að sýna fyrstu átta íslensku þingmennina og spegla þá við átta finnska þingmenn. Það var skemmtileg staða í tímasetningunni því þegar þessi sýning var opnuð þá var nýbúið að kjósa til þings í Finnlandi og kominn til valda flokkur sem merkilegt nokk enginn kannaðist við að hafa kosið. Ekki ósvipað og við vorum að upplifa hér án þess að ég ætli að fara að boða einhvern rétttrúnað. Ég ætla ekki að segja fólki hvað það á að kjósa í kosningunum í haust, nema að ég bið það um að kjósa vonina. En svona er tímasetningin oft í senn skemmtileg og mikilvæg fyrir samtímalistina.“

Birgir vitnar í orð kvikmyndagerðarmannsins Johns Waters sem sagði um verk Johns Currin að góð myndlist ætti að rugla mann í rýminu á fallegan hátt. „Ég er að vona að verkið mitt verki þannig. Það byrjar sem viðbragð við ástandinu en svo verð ég í rauninni þátttakandi, meðvirkur ef eitthvað er. Þannig að fyrir mér er gott að losa verkið núna til sýningar, mér líður svolítið eins og ég sé búinn að ákveða að fara ekki fram í næstu kosningum, og það er voða góð tilfinning.“



Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×