Innlent

Steig til hliðar en talar fyrir lögregluna á ráðstefnu í Helsinki

Þorgeir Helgason skrifar
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, sækir ráðstefnu í Helsinki.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, sækir ráðstefnu í Helsinki. vísir/pjetur
Alda Hrönn Jóhannesdóttir, aðallögfræðingur lögreglustjóraembættisins á höfuðborgarsvæðinu, er einn af fyrirlesurum á ráðstefnu um kynjað ofbeldi sem fer fram í lok mánaðarins í Helsinki.

Alda steig til hliðar hjá lögreglunni um miðjan október eftir að settur héraðssaksóknari hóf rannsókn á störfum hennar í LÖKE-málinu svonefnda. Henni er gefið að sök að hafa misbeitt lögregluvaldi við rannsókn málsins.

Á kynningarsíðu ráðstefnunnar segir að Alda komi fram fyrir hönd lögreglunnar í Reykjavík. Hún muni ræða nýja nálgun sem lögreglan hefur þróað í samstarfi við félagsmálayfirvöld í baráttunni gegn heimilisofbeldi. Alda hefur starfað fyrir hönd lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í samstarfsverkefninu „Saman gegn ofbeldi“ og er fyrirlestur hennar þáttur í kynningu á niðurstöðum verkefnisins.

„Hún gegnir engum trúnaðarstörfum fyrir lögregluembættið eins og er,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. Hún segir jafnframt að embættið geti ekki upplýst um hverjar kunni að vera fyrirætlanir Öldu á meðan hún er fjarverandi frá störfum og í leyfi.

Alda hefur neitað sök um að hafa misbeitt lögregluvaldi. Hún segir að aðkoma sín að LÖKE-málinu hafi fallið undir starfsskyldur sínar og að hún hafi rækt þær af fyllstu fagmennsku og í samræmi við meðferð slíkra mála.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Alda Hrönn stígur til hliðar vegna ásakana um að hafa misbeitt valdi sínu

Lúðvík Bergvinsson héraðsdómslögmaður er settur héraðssaksóknari í máli sem varðar ásakanir á hendur Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, aðllögfræðings lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en hún er sökuð um að hafa misbeitt lögregluvaldi við rannsókn á LÖKE-málinu svokallaða.

Alda Hrönn á fullum launum á meðan rannsókn stendur yfir

Laun Öldu Hrannar Jóhannsdóttur aðallögfræðings lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru óskert þrátt fyrir að hún sé nú í ótímabundnu leyfi frá störfum vegna rannsóknar Lúðvíks Bergvinssonar setts héraðssaksóknara á meintum brotum Öldu Hrannar í starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×