Menning

Spennandi fyrir okkur

Magnús Guðmundsson skrifar
Sigurður Flosason fer víða og m.a. vinnur hann oft í Danmörku og Svíþjóð með þarlendum tónlistarmönnum.
Sigurður Flosason fer víða og m.a. vinnur hann oft í Danmörku og Svíþjóð með þarlendum tónlistarmönnum. Visir/Valli
Kvartett saxófónleikarans Sigurðar Flosasonar heldur þrenna tónleika í Hömrum í Hofi nú um helgina. Fyrstu tónleikarnir verða kl. 14 á laugardag en á sunnudaginn verða djassararnir á ferð kl. 14 og 20. Sigurður segir að þessir tónleikar séu hluti af nýju fyrirkomulagi á Akureyri þar sem Menningarfélagið stendur fyrir virkri starfsemi allt árið en leggst ekki í sumardvala eins og áður var.

„Þetta er spennandi fyrir okkur því með þessu er verið að miða á bæði innfædda og ferðafólk og svo eru það skemmtiferðaskipin. Þannig að það er verið að láta reyna á hvað er þarna úti, landið er fullt af ferðamönnum, þannig að þetta er bara mjög spennandi.

Það er gaman fyrir okkur í íslenska djasslífinu að láta reyna á þessa viðbót því að þetta er svo þröngur markaður. Það er algengt að maður geri einhver verkefni og geti svo kannski spilað það einu sinni eða tvisvar og þá er maður búinn að tæma markaðinn. En fjöldi fólks á landinu margfaldast með ferðamönnum og það ætti að gefa möguleika á að það sé hægt að gera hlutina oftar, sem er vissulega músíklega spennandi fyrir okkur.“

Sigurður segir að þar sem hann starfi á þessum litla markaði þá fari hann líka mikið út fyrir Ísland til þess að spila og að það breyti stöðunni talsvert. „Ég er mest að spila í Danmörku og dálítið í Svíþjóð líka þar sem ég spila talsvert með þarlendum listamönnum. Það er svo mikið og líflegt djasslíf á Norðurlöndunum og svo er ákveðin lyftistöng að geta stundum spilað með öðru fólki og fyrir annað fólk. Þó svo að við höfum bæði góða músíkanta og góða áhorfendur hér þá er gaman að stækka hringinn stundum.“

Það verður fjölbreytt og skemmtileg efnisskrá sem gestir helgarinnar í Hofi fá að heyra frá Kvartett Sigurðar Flosasonar. Auk Sigurðar skipa kvartettinn þeir Kjartan Valdemarsson á píanó, Valdimar K. Sigurjónsson á kontrabassa og Matthías Hemstock á trommur. Sérstakur gestur verður söngkonan Andrea Gylfadóttir. „Við ætlum að spila svolítið instrúmental og svo verður Andrea líka með okkur. Þetta verður aðeins á mörkum blús og djass og það ætti enginn að verða svikinn af þessu. Hof er frábært hús og þá á að vera hægt að gera eitthvað skemmtilegt þar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×