Erlent

Snus sagt auka líkur á sykursýki

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Vísindamenn í Svíþjóð hafa varað við notkun á snus-i.
Vísindamenn í Svíþjóð hafa varað við notkun á snus-i. vísir/afp
Sænskir vísindamenn telja að munntóbakið snus geti aukið líkur á að fólk þrói með sér sykursýki 2 um allt að 70 prósent. Þetta eru niðurstöður viðamikillar rannsóknar sem gerð var á árunum 1990 til 2013 og náði til 54.500 manns. BBC greinir frá.

Sænska munntóbakið er bannað í öllum ríkjum Evrópusambandsins, sem og á Íslandi, en Svíþjóð er með undanþágu frá banninu.

Rannsóknin var gerð af vísindamönnum frá Umea háskóla, háskólanum í Lundi og Karólínska háskólanum. Samkvæmt rannsókninni eru um 40 prósent líkur á sykursýki 2 hjá þeim sem nota fjóra til sex munntóbaksdósir á viku, og 70 prósent líkur hjá þeim sem nota eina eða fleiri dósir á dag.

Dr. Sofia Carlsson, vísindamaður hjá Karólínska, segir í samtali við sænska fjölmiðla að almenn skoðun Svía sé sú að snus sé ekki eins hættulegt og reykingar, en að niðurstöður þessarar rannsóknar bendi til þess að hættan sé svipuð. Hins vegar hafi fáar rannsóknir verið gerðar á skaðsemi sænska munntóbaksins.

„Okkar niðurstöður eru þær að fólk ætti að sleppa bæði snusi og reykingum ef það vill minnka líkur á sykursýki,“ segir hún.

Sykursýki 2 er áunnin sykursýki og insúlínóháð. Á vef Lyfju segir að hún sé algengust hjá eldra fólki og stundum kölluð fullorðins sykursýki. Briskirtillinn sé búinn að hægja á starfsemi sinni, hann framleiði insúlín en ekki nægjanlega mikið, eða að frumur líkamans hafi minnkað næmi fyrir insúlíni og að þar af leiðandi nýtist það ekki. Við það hækki blóðsykurinn.

Insúlínóháð sykursýki er erfðatengdur sjúkdómur sem oft leysist úr læðingi vegna óæskilegra lifnaðarhátta. Það getur verið offita eða hreyfingarleysi, eða bæði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×