Erlent

Sendiherra Jemen biðlar til öryggisráðsins að senda hermenn

Atli Ísleifsson skrifar
Hútar njóta stuðnings Íransstjórnar, en sádi-arabíski herinn hefur gert fjölda loftárása á landið síðustu vikurnar.
Hútar njóta stuðnings Íransstjórnar, en sádi-arabíski herinn hefur gert fjölda loftárása á landið síðustu vikurnar. Vísir/AFP
Sendiherra Jemen gagnvart Sameinuðu þjóðunum hefur ritað bréf til öryggisráðsins þar sem hann biðlar til alþjóðasamfélagsins að bregðast fljótt við ástandinu í landinu og senda hermenn til bjargar landinu.

Sendiherrann Khaled Alyemany ritaði bréf og kom því í hendur fulltrúa öryggisráðsins fyrr í dag. Þá hvatti hann mannréttindasamtök til að skrá niður grimmdarverk uppreisnarmanna í landinu „gegn varnarlausum íbúum“.

Í frétt Al Jazeera segir að 120 manns hið minnsta hafi látist í hafnarborginni Aden í dag þar sem hörð átök geisa minni uppreisnarsveita Húta og stuðningsmanna Abd-Rabbu Mansour Hadi forseta. Hadi hefur sjálfur flúið land og dvelur nú í Sádi-Arabíu.

Hútar njóta stuðnings Íransstjórnar, en sádi-arabíski herinn hefur gert fjölda loftárása á landið síðustu vikurnar.

Riyadh Yaseen, utanríkisráðherra Jemen, hefur sakað Húta þjóðarmorð og hvatt alþjóðasamfélagið að höfða mál gegn þeim fyrir þar til gerðum dómstólnum.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mætti til Ríad, höfuðborgar Sádi-Arabíu, fyrr í dag þar sem hann fundaði með fulltrúum sádi-arabískra stjórnvalda, meðal annars um ástandið í Jemen.


Tengdar fréttir

Tvískinnungur Washington

Hundruð almennra borgara hafa látið lífið í drónaárásum Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×