Erlent

Segir fullvíst að Trump muni ekki reka Mueller

Samúel Karl Ólason skrifar
Paul Ryan ræddi við blaðamenn í dag.
Paul Ryan ræddi við blaðamenn í dag. Vísir/AFP
Paul Ryan, leiðtogi Repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, segist fullviss um að Donald Trump, forseti, myndi ekki víkja Robert Mueller, sérstökum saksóknar Dómsmálaráðuneytisins, úr starfi og þannig binda enda á Rússarannsóknina svokölluðu. Hann sagði Trump ekki vera að íhuga slíkar aðgerðir, þrátt fyrir að forsetinn hafi undanfarna mánuði farið hart fram gegn Mueller og rannsókn hans.

Hann sagði Mueller eiga að fá að klára rannsókn sína, án truflana, og hann sagðist fullviss um að það myndi ganga eftir. Þá sagðist Ryan hafa fengið staðfestingu á því innan búða forsetans að ekki væri verið að íhuga að reka Mueller.

Ryan vildi ekki segja blaðamönnum í dag hver hefði veitt honum þessar upplýsingar né vildi hann segja hvort hann myndi styðja lagafrumvarp sem ætlað væri að vernda Rússarannsóknina gegn inngripi Trump.

Mueller rannsakar afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016 og mögulegt samstarf framboðs Trump með Rússum. Þar að auki rannsakar Mueller hvort að Trump hafi reynt að koma í veg fyrir gang réttvísinnar með því að reka James Comey, fyrrverandi yfirmann Alríkislögreglunnar, sem um tíma var yfir rannsókninni.

Eftir að Trump viðurkenndi í sjónvarpsviðtali að hann hefði rekið Comey vegna rannsóknarinnar var Mueller skipaður í embættis sérstaks saksóknara. Trump hefur ítrekað talað um „nornaveiðar“ gagnvart sér og nú um helgina gagnrýndi hann Mueller harðlega fyrir að ráða marga Demókrata til að rannsaka málið.


Tengdar fréttir

Aðstoðarforstjóri FBI rekinn

Andrew McCabe, aðstoðarforstjóri bandarísku alríkislögreglunnar FBI, var rekinn í gærkvöldi.

Enn rífst Trump og skammast á Twitter

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hellti í dag og í gær úr skálum reiði sinnar vegna rannsóknar Robert Mueller, sérstaks saksóknara, á afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016




Fleiri fréttir

Sjá meira


×