Viðskipti innlent

Segir algjöran skort á eftirliti með slitastjórnarmönnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.
Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Mynd/ GVA.
Guðlaugur Þór Þórðarson, fulltrúi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, segir ekkert eftirlit hafa verið haft með launagreiðslum til skilanefnda- og slitastjórnarmanna. Fram hefur komið í fjölmiðlum að undanförnu að laun slitastjórnarmanna, meðal annars þeirra Steinunnar Guðbjartsdóttur og Páls Eiríkssonar í slitastjórn Glitnis, hafi numið tugum milljóna á síðasta ári. Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fundaði um málið í morgun, að beiðni Guðlaugs Þórs. Hann segir að þrátt fyrir fögur fyrirheit hafi stjórnvöld ekkert beitt sér fyrir því að launin yrðu lækkuð.

Þar vísar Guðlaugur Þór meðal annars í orð Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra, sem sagði árið 2010 að hann hygðist beita sér fyrir því að laun skilanefndarmanna bankanna verði lækkuð. Ofurlaun þeirra sendi röng skilaboð út í samfélagið. Þá hafði Fréttablaðið nýlega greint frá því að skilanefndarmenn og slitastjórnendur gömlu bankanna fengu að meðaltali þrjár til fimm milljónir króna í laun á mánuði í fyrra. „Það eru engin rök að það séu ekki tæki til að beita viðurlögum," segir Guðlaugur. Eftirlitið þurfi samt að vera til staðar.

„Það er ekki eins og það vanti umræðuna um þetta. Ég held að enginn geti haldið því fram að það hafi ekki verið umræða um þetta," segir Guðlaugur Þór sem fullyrðir að þeir ráðherrar sem beri ábyrgð á málinu hafi ekki staðið sína pligt.


Tengdar fréttir

Kanna hvernig ríkið geti brugðist við ofurlaunum slitastjórnamanna

Kannað verður hvort ríkið geti gripið til viðbragða vegna ofurgreiðslna til slitastjórna föllnu bankanna og fyrirtækja og aðila þeim tengdum. Málið var rætt á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun. Mikil umræða var á dögunum um gríðarlega háar greiðslur til slitastjórnarmanna Glitnis, Steinunnar Guðbjartsdóttur og Páls Eiríkssonar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×