Enski boltinn

Sautján meiddir hjá United fyrir leikinn gegn Watford

Louis van Gaal gerði tilraun til að meiða sig sjálfan gegn Arsenal en komst heill í gegnum leikinn.
Louis van Gaal gerði tilraun til að meiða sig sjálfan gegn Arsenal en komst heill í gegnum leikinn. vísir/getty
Ótrúleg meiðslavandræði Manchester United halda áfram, en Louis van Gaal, knattspyrnustjóri liðsins, verður án 17 leikmanna þegar United tekur á móti Watford í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld.

Bakvörðurinn Donald Love haltraði af velli í leik með U21 árs liðinu í gærkvöldi og varð þar með 17. maðurinn á meiðslalistann.

Þessi 21 árs gamli varnarmaður, sem spilaði sinn fyrsta leik fyrir United gegn Midtjylland í Herning á dögunum, tognaði að öllum líkindum aftan í læri í sigri á Middlesbrough í gærkvöldi.

Van Gaal verður því án Donald Love, Matteo Darmian, Phil Jones, Ashley Young, Antonio Valencia, Luke Shaw, Cameron Borthwick-Jackson, Wayne Rooney, Sam Johnstone, Chris Smalling, Axel Tuanzebe, Marcos Rojo, Sean Goss, Marouane Fellaini, Bastian Schweinsteiger, Will Keane og Anthony Martial á morgun, samkvæmt vef Sky Sports.

Vissulega eru þarna minni spámenn á borð við Tuanzebe, Sean Goss og Will Keane en minni spámenn hafa nú verið að fá sín tækifæri í United-liðinu að undanförnu.

Manchester United vann Arsenal, 3-2, í stórleik síðustu helgar í ensku úrvalsdeildinni og er með 44 stig í fimmta sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Manchester City sem á leik til góða.

Fimm leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í kvöld og aðrir fimm annað kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×