Viðskipti innlent

RÚV selur byggingarrétt við Efstaleiti

Samúel Karl Ólason skrifar
Vinningstillagan um uppbyggingu lóðarinnar við Efstaleiti 1.
Vinningstillagan um uppbyggingu lóðarinnar við Efstaleiti 1.
Ríkisútvarpið hefur selt byggingarrétt á lóð við Efstaleiti 1. Í heildina er áætlaður ávinningur sölunnar einn og hálfur milljarður króna. Það mun þó ekki ráðast fyrr en deiliskipulag hefur verið staðfest. Í tilkynningu frá RÚV segir að ávinningurinn verði nýttur til að greiða niður skuldir félagsins, en enn ríki óvissa í fjármálum RÚV vegna yfirskuldsetningar.

Skrifað var undir kaupsamning á milli RÚV og einkahlutafélags með ábyrgð Skuggabyggðar ehf. um byggingarrétt á lóð RÚV í dag. Unnið er að deiliskipulagi lóðar á grundvelli vinningstillögu Arkþings um skipulag svæðisins. Samkvæmt tilkynningunni stendur til að byggja upp blandaða byggð á svæðinu.

Sjá einnig: RÚV skilaði hagnaði fyrstu sex mánuði ársins.

Síðastliðið ár hefur staðið yfir fjárhagsleg endurskipulagning á starfsemi RÚV. Meðal hagræðingaraðgerða hefur verið gripið til endurskipulagningar á húsnæðismálum Ríkisútvarpsins. 2.750 fermetrar húsnæðis þess hafa verið leigðir til annarrar starfsemi.

Félagið er þó enn yfirskuldsett og stærsti hluti skuldanna er skuldabréf í eigu Lífeyrissjóða starfsmanna ríkisins. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×