Innlent

Rannsóknarnefnd skipuð vegna kynferðisbrota innan kaþólsku kirkjunnar

Pétur Bürcher hefur ákveðið að sjálfstæð rannsóknarnefnd að fyrirmynd rannsóknarnefndar þjóðkirkjunnar fjalli um ásakanir um kynferðisbrot innan kaþólsku kirkjunnar.
Pétur Bürcher hefur ákveðið að sjálfstæð rannsóknarnefnd að fyrirmynd rannsóknarnefndar þjóðkirkjunnar fjalli um ásakanir um kynferðisbrot innan kaþólsku kirkjunnar. Mynd/GVA
Pétur Bürcher, biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, hefur ákveðið að skipuð verði sjálfstæð rannsóknarnefnd sem fjalla mun um ásakanir um kynferðislega misnotkun innan kirkjunnar sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum að undanförnu. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Pétur veitt Róberti Spanó, prófessor í lögfræði, umboð til að manna nefndina og útbúa það regluverk sem rannsóknarnefndin mun síðan vinna eftir.

Pétur og nokkrir forystumenn kaþólsku kirkjunnar funduðu í dag um næstu skref en þeim fundi lauk á sjöunda tímanum í kvöld. Róbert var meðal þeirra sem sátu fundinn.

Róbert veitti rannsóknarnefnd kirkjuþings forystu, en nefndin skilaði fyrir skömmu af sér skýrslu vegna kynferðisbrota Ólafs Skúlasonar, fyrrverandi biskups. Róbert er einnig formaður nefndar sem undanfarin ár hefur rannsakað starfsemi vistheimila ríkisins.

Heimildir fréttastofu herma að Róbert hyggst ekki taka sæti í rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar vegna tengsla sinna við hana. Ekki fengust upplýsingar um hversu margir munu eiga sæti í nefndinni né hversu langan tíma hún hefur til að rannsaka þær ásakanir sem fram eru komnar um kynferðisbrot innan kirkjunnar.


Tengdar fréttir

Innanríkisráðherra svarar biskupi

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur svarað bréfi sem ritað var af lögmanni fyrir hönd biskups kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Ögmundur leiðréttir í bréfi sínu misskilning í bréfi kaþólsku kirkjunnar en þar sagði að dregist hefði að senda kirkjunni gögn frá ráðuneytinu sem vörðuðu meint gróf lögbrot af hálfu þjóna kirkjunnar og stofnana hennar á skjólstæðingum sínum. Frá þessu er greint á vef innanríkisráðuneytisins.

Fagráð taki fyrir ásakanir um kynferðislega misnotkun

Kaþólska kirkjan á Íslandi fundaði í dag um ásakanir um kynferðislega misnotkun innan kirkjunnar sem fjallað hefur verið um undanfarið. Viðbrögð kirkjunnar er að vænta í kvöld eða í fyrramálið.

Allt að 14 rúður brotnar í biskupsbústaðnum

Karlmaður var handtekinn við biskups- og prestsbústaðinn við Landakot í nótt eftir að hafa brotið fjölmargar rúður í bústaðnum. Séra Patrick Breen, staðgengill biskups kaþólsku kirkjunnar hér á landi, segir að maðurinn hafi brotið allt að 14 rúður í bústaðnum sem stendur við Hávallagötu í Reykjavík.

Saka kaþólskan prest um kynferðislegt ofbeldi

Mál tveggja manna sem saka presta og starfsmann kaþólsku kirkjunnar á Íslandi um andlegt og kynferðislegt ofbeldi er til meðferðar hjá fagráði um kynferðisbrot. Annar mannana segir kennslukonu og skólastjóra Landakotsskóla hafa misnotað sig kynferðislega á löngu tímabili. Fjallað er um málið í Fréttatímanum í dag. Mál tveggja manna sem saka presta og starfsmann kaþólsku kirkjunnar á Íslandi um andlegt og kynferðislegt ofbeldi er til meðferðar hjá fagráði um kynferðisbrot. Annar mannana segir kennslukonu og skólastjóra Landakotsskóla hafa misnotað sig kynferðislega á löngu tímabili. Mennirnir sem stíga fram og segja sögu sína í Fréttatímanum í dag eru um fimmtugt. Brot gegn þeim eru fyrnd og hinir meintu gerendur látnir. Annar maðurinn segist hafa orðið fyrir grófu kynferðislegu ofbeldi af hálfu sér A. George, sem var á þeim tíma skólastjóri Landakotsskóla, og Margrét Müller, þýskrar kennslukonu við skólann. Séra George var einn af valdamestu mönnum kaþólsku kirkjunnar hér á landi og sæmdur riddarakrossi fyrir störf sín. Margrét Müller var kennslukona við skólann. Hún bjó í einum af turnum skólans þar til hún svipti sig lífi. Lýsingar mannana, sem birtast í Fréttatímanum, eru sláandi. Þar er ofbeldið sagt hafa haldið áfram í sumarbúðum fyrir krakkana í Ölfusi. Í niðurlagi greinarinnar er sagt að fréttaflutningur á síðasta ári af kynferðisbrotum kaþólskra presta út í heimi hafi ýtt við mönnunum og fengið þá til að stíga fram með sögu sína. Þeir hafi skrifað Pétri Bürcher, biskupi kaþólikka hér á landi, bréf en fengið þau svör ekkert yrði aðhafst af hálfu kaþólsku kirkjunnar hér á landi.

Kaþólski biskupinn hafnar ásökunum um þöggun

Það er rangt að halda því fram að kaþólski biskupinn á Íslandi hafa þagað yfir ásökunum á hendur starfsmönnum kaþólsku kirkjunnar um kynferðislegt ofbeldi. Þetta segir Pétur Bürcher, biskup kaþólsku kirkjunnar, í yfirlýsingu til fjölmiðla vegna umfjöllunar Fréttatímans um ásakanir á hendur fyrrverandi skólastjóra Landakotsskóla og samstarfskonu hans sem eru látin.

Kaþólski biskupinn tekur ásakanirnar alvarlega - dómstólar ákvarða sekt

"Biskup tekur mjög alvarlega þær ásakanir sem fram eru bornar um kynferðislegt áreiti innan vébanda Kaþólsku kirkjunnar. Vill kirkjan af öllum mætti styðja við þá einstaklinga sem hlut eiga að máli og stendur öll sú þjónusta sem kirkjan hefur fram að bjóða þeim opin."

Biskupinn fundar um næstu skref

Pétur Bürcher, biskup Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, hefur átt fundi í dag um möguleg skref til að bregðast við þeim upplýsingum sem fram hafa komið um kynferðisbrot presta og starfsmanna kirkjunnar. Pétur hefur meðal annars rætt við Róbert Spanó, prófessor í lögfræði, sem veitti rannsóknarnefnd kirkjuþings forystu, en nefndin skilaði fyrr í mánuðinum af sér skýrslu vegna kynferðisbrota Ólaf Skúlasonar, fyrrverandi biskups.

Vonar að séra George sé í helvíti

"Ef það er til helvíti, og mikið svakalega vona ég það, þá er hann þar. Hann var alveg skelfilegur maður. Hann talaði um að ef ég segði frá myndi mamma deyja." Þetta segir Iðunn Angela Andrésdóttir í viðtali í Fréttatímanum þar sem hún greinir frá kynferðislegu ofbeldi sem séra George, skólastjóri Landakotsskóla, beitti hana þegar hún var barn. Tvær konur stíga fram í Fréttatímanum í dag og greina frá því að séra Georg hafi misnotað þær kynferðislega þegar þær voru nemendur við Landakotsskóla. Angela segir skólastjórann hafa byrjað að misnotað sig þegar hún var tíu ára og að ofbeldið hafi staðið yfir í þrjú ár. "Hann þuklaði á mér, sleikti á mér eyrun, fór undir peysuna og þuklaði brjóstin á mér. Fór ofan í nærbuxurnar og stakk fingrunum inn í mig. Þegar ég var orðin aðeins eldri fór hann inn í fataherbergið og fróaði sér," segir Angela. Fréttatíminn greindi frá því í síðustu viku að fagráð um kynferðisbrot innan kirkjunnar hafi til meðferðar mál tveggja manna sem saka starfsmenn kaþólsku kirkjunnar um andlega og kynferðislega misnotkun. Í nýjasta tölublaðinu sem kom út í dag er umfjölluninni haldið áfram. Hin konan sem þar stígur nú fram, Rut Martine Unnarsdóttir, segir að sér hafi brugðið við að lesa lýsingarnar á ofbeldinu sem birtust í síðasta tölublaði Fréttatímans og að þær hafi ýtt við henni að segja frá sinni reynslu. Biskup Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, séra Pétur Bürcher, sendi frá sér yfirlýsingu í liðinni viku vegna umfjöllunar Fréttatímans um kynferðisbrot starfsmanna kirkjunnar þar sem hann hafnaði ásökunum um þöggun. Hann sagðist taka ásakanirnar mjög alvarlega en velti því jafnframt upp hver væri réttur látinna einstaklinga sem sakaðir eru um þessi brot, en ásamt séra George var kennari við skólann, Margrét Müller sakaður um að hafa beitt nemendur ofbeldi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×