Innlent

Rannsókn í umfangsmiklu fjársvikamáli á lokametrunum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Tveir karlmenn og ein kona voru úrskurðuð í  gæsluvarðhald vegna málsins.
Tveir karlmenn og ein kona voru úrskurðuð í gæsluvarðhald vegna málsins. Vísir/Heiða
Vísir sagði frá því þann 29. febrúar síðastliðinn að tveir karlmenn og ein kona hefðu verið handtekin og úrskurðuð í gæsluvarðhald vegna gruns um aðild að umfangsmiklum peningaþvætti. Heildarupphæðin sem um ræðir er um 50 milljónir krónar og teygist hluti málsins út fyrir landsteina.

Lögmaðurinn Steinbergur Finnbogason var handtekinn við komu í skýrslutöku með skjólstæðing sínum, grunaður um aðild að málinu. Í kjölfar handtökunnar ver gerð húsleit á skrifstofu og heimili Steinbergs og rafræn gögn afrituð sem sönnunargögn í málinu.

Um er að ræða alls 2058 möppur auk skjala sem undir þeim eru vistuð og varða ýmis mál lögmannsins. Möppurnar bera heiti eins og, einelti á vinnustað, kannabisræktun, forræðismál, hótanir og Stígamót. Auk þess eru gjarnan nöfn viðkomandi skjólstæðinga tilgreind við heitið.





 

Steinbergur Finnbogason, héraðsdómslögmaður
Héraðssaksóknara ber að eyða gögnunum

Héraðssaksóknara ber nú að eyða afritum af rafrænum gögnum sem haldlögð voru við húsleitina. Þetta var niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur þann 15. júlí. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar en vísað frá síðastliðinn þriðjudag. Steinbergur hefur sjálfur tjáð sig um málið í aðsendum greinum í Fréttablaðið og þá síðast í gær.

Héraðssaksóknari bar það fyrir sig að ef hluta gagnanna væri eytt gæti litið svo út að sönnunargögnum hefði verið spillt eða við þau átt. Þá segir héraðsdómur að burtséð frá því hvort sú sé raunin, geta slík tæknileg vandamál ekki heimilað að gögn sem fyrir fram má næstum örugglega gefa sér að geti aldrei tengst því máli sem verið er að rannsaka séu haldlögð. 

Rannsókn málsins ætti að ljúka fljótlega

Niðurstaða héraðsdóms var sú að sönnunarbyrði hvíli á héraðssaksóknara fyrir því að gera það sennilegt að haldlögð gögn geti haft sönnunargildi í málinu. Meðal annars vegna þess að gögnin innihalda trúnaðarupplýsingar milli lögmanns og skjólstæðings. Þá var það niðurstaða dómsins að burtséð frá þeim meintu rannsóknarhagsmunum sem héraðssaksóknari byggði hald sitt á, væru aðrir hagsmunir í málinu, meðal annars þagnarskylda lögmanna og mannréttindi í meðferð sakamála.

Björn Þorvaldsson héraðssaksóknari segir í samtali við Vísi að ekki verði áfrýjað og að dómur héraðsdóms standi. Hann segir jafnframt að rannsókn málsins gangi vel og ætti að ljúka fljótlega.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×