Drunurnar sem bárust frá Herðubreið um hádegisbil í fyrradag, og vörðu í um 30 sekúndur, stöfuðu af blandaðri skriðu í norðausturhlíðum fjallsins, sem hófst með því að gamall snjóskafl spratt fram.
Að sögn Hörpu Grímsdóttur hjá Veðurstofu Íslands losnaði gamall snjór ofarlega í fjallinu og hrundi niður eftir norðausturhlíð þess. Flóðið reif svo með sér laust grjót þegar neðar dró, sem er ástæðan fyrir því hversu háar drunurnar urðu. Skriðan varð hátt uppi í fjallinu og ógnaði engum.
Harpa segir að fólk ætti að fara varlega í kringum snarbrattar brekkur þar sem enn sé snjóskafla að finna, en óvanalega mikill snjór sé enn í fjöllum á austanverðu landinu. Aðstæður í Herðubreið séu þó ekki neitt óöruggari en vanalega. Alltaf fylgi því ákveðin hætta að ganga á fjöll. Ekki sé sérstakt eða óvenjulegt að slíkt geti gerst að sumri til, þó svo að flóð sem þessi séu heldur óvanaleg í ágústmánuði.
Ráðgátan um drunurnar í Herðubreið leyst

Tengdar fréttir

Óútskýrðar drunur frá Herðubreið
Ekki enn vitað hvort drunurnar stöfuðu af snjóflóði, skriðu eða einhverju öðru, en það verður kannað nánar í dag.

Snjóflóð féll í Herðubreið í gær
Snjóflóð féll úr hlíðum Herðubreiðar í gær, en engin var þar á ferð þegar það gerðist. Þetta var flekahlaup upp á þrjú stig, og féll upp úr hádegi, en flóð af þeirri stærð geta grafið bíla og skemmt eða eyðilagt heilu húsin.