Viðskipti innlent

QuizUp afar fyrirferðarmikið á sjónvarpsráðstefnu í Cannes

Birgir Olgeirsson skrifar
Þorsteinn B. Friðriksson, höfundur Quiz Up, ásamt Viggó Erni Jónssyni framleiðanda.
Þorsteinn B. Friðriksson, höfundur Quiz Up, ásamt Viggó Erni Jónssyni framleiðanda. Vísir
Hin árlega MIPCOM-sjónvarpsráðstefnan fer nú fram í Cannes í Frakklandi og er QuizUp afar fyrirferðarmikið á þeirri ráðstefnu. Mikil spenna er sögð fyrir Quiz-up sjónvarpsþættinum sem NBCUniversal International Studios hafa tryggt sér réttinn að og hefur breski fjölmiðlarisinn tryggt sér sýningaréttinn í Bretlandi.

Þorsteinn B. Friðriksson, höfundur QuizUp, er staddur úti í Cannes að kynna þáttinn fyrir sjónvarpsstöðvum og segir hann NBC leggja töluvert í auglýsingar fyrir þáttinn.

NBC sjónvarpsstöðin hefur lagt töluvert í kynningarherferð fyrir QuizUp-þættina á sjónvarpsráðstefnunni í Cannes líkt og sjá má á þessari mynd.
„NBC er að auglýsa mjög mikið á þessari sýningu og menn tala um að þeir hafi ekki séð svona herferð frá NBC í langan tíma. Ástæðan er sú að NBC er mjög spennt fyrir þessum þætti og ætlar sér að fara alla leið með þetta. Við erum merkt hérna hátt lágt og erum mjög áberandi hérna í höllinni,“ segir Þorsteinn.

Hann segir upplifunina fremur fjarstæðukennda, að labba inn á eina af stærstu sjónvarpsráðstefnum í heiminum og sjá QuizUp alls staðar. „Það er vissulega auðvitað ótrúlega ánægjulegt og pínulítið auðmýkjandi. Maður trúir þessu varla.“

Spurður hvers vegna svo mikil spenna ríki fyrir QuizUp þættinum svarar hann því að þátttaka áhorfenda heima í stofu heilli marga.

NBC bjó til sérstakan spurningaflokk á QuizUp fyrir ráðstefnuna þar sem sigurvegarinn fær Teslu-bíl að launum.
Þættirnir ganga þannig fyrir sig að þátttakandi í upptökuveri etur kappi við sjónvarpsáhorfendur sem sitja heima hjá sér og spila leikinn í snjalltækjum sínum. Ef þátttakandinn vinnur átta spurningalotur gegn átta ólíkum keppendum, sem geta verið staddir hvar sem er í landinu, þá geta þeir unnið háa fjárhæð. Ef einhverjir af andstæðingunum vinna sínar lotur, þá hljóta þeir upphæðina sem í boði var fyrir þá lotu.

„Ólíkt mörgum öðrum þáttum þá er QuizUp-appið ekki hugsað eftir á.  Það er ekki oft sem þáttur er búinn til í kringum appið sem er þegar á markaði og þekkt um allan heim. Ég held að hvernig þátturinn sjálfur er uppbyggður að þátttakendur geta unnið pening heima í stofu hjá sér, ég er sammála því að það er frekar spennandi hugmynd,“ segir Þorsteinn.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×