Lífið

Peaches var heróínfíkill

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
vísir/getty
Dánardómstjóri hefur gefið út tilkynningu um að Peaches Geldof, dóttir tónlistarmannsins Bobs Geldof og fyrirsætunnar og sjónvarpskonunnar heitinnar Paulu Yates, hafi dáið úr of stórum skammti af heróíni.

Meinafræðingurinn Peter Jerreat sagði við réttarrannsókn að stunguför eftir nálar hefðu fundist á líki Peaches, á olnbogum, þumalfingrum og úlnliðum og að heróínmagn í blóði hennar hafi verið banvænt. Þá fundust einnig leifar af mebadoni, kódíni og morfíni í blóði hennar.

Peaches fannst látin á heimili sínu í Kent á Englandi í byrjun apríl á þessu ári. Hún var gift rokkaranum Thomas Cohen og sagði hann við réttarrannsóknina hafa fundið hana í gestaherberginu.

Peaches með eiginmanninum og börnunum þeirra tveimur.vísir/getty
„Við notuðum það bæði þegar börnin sváfu,“ sagði Thomas en Peaches skildi eftir sig tvo unga syni; Phaedra og Astala.

Þá á Thomas að hafa sagt að Peaches hafi verið í meðferð við fíkninni í tvö ár og að hún hafi tekið vikuleg próf til að athuga hvort hún væri að taka inn fíkniefni. Hann heldur núna að hún hafi logið til um neysluna.

„Í nóvember í fyrra hætti hún að taka heróín í kjölfar strangrar meðferðar og ráðgjafar,“ segir dánardómstjórinn Roger Hatch.

„Þetta var mikið afrek fyrir hana en af ástæðum sem við fáum aldrei að vita byrjaði hún aftur að taka heróín fyrir andlátið,“ bætir hann við.

Samkvæmt BBC var heróínið sem Peaches tók í hæsta gæðaflokki og fundust meðal annars 34 sprautunálar, bómullarhnoðrar og brenndar skeiðar á heimili hennar.


Tengdar fréttir

Peaches Geldof látin

Dóttir tónlistarmannsins Bob Geldof og Paula Yates látin, 25 ára að aldri.

Seinustu myndir Peaches

Seinasta myndin sem Peaches Geldof deildi á samfélagsmiðlunum Twitter var mynd af henni og móður hennar.

Öskunni dreift í Kent

Ösku Peaches Geldof verður dreift á sama stað og ösku móður hennar var dreift árið 2000.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×