Erlent

Óskar eftir hæli í Ekvador

Bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden hefur óskað eftir pólitísku hæli í Ekvador. Øystein Jakobsen, fulltrúi norskra Pírata, fullyrti í dag að Snowden myndi fljúga til Noregs í kvöld og þaðan til Íslands, en nú er ljóst að svo verður ekki.

Snowden lenti í Moskvu í Rússlandi um klukkan eitt í dag að íslenskum tíma en hann flug þangað frá Hong Kong með farþegaflugvél. Starfsmenn sendiráðs Ekvadors í Moskvu biðu hans á flugvellinu. Síðdegis var svo greint frá því að hann hefði óskað eftir að fá pólitískt hæli í Ekvador en uppljóstrarasamtökin WikiLeaks hafa verið honum innan handar.

„Það er búið að tryggja það að umsókn hans um pólitískt hæli verður móttekin og ferluð af góðum vilja og hug,“ segir Kristinn Hrafnsson talsmaður Wikileaks.

Erlendir fréttamiðlar greina frá því að Snowden eigi bókað flug á morgun til Havana á Kúbu og fari svo þaðan til Ekvador.

„Wikileaks hefur náttúrulega sérstök tengls við Ekvador af augljósum ástæðum þar sem að Julians Assange er í sendiráði Ekvadors í London. Ég var að koma sjálfur frá Ekvador,“ segir Kristinn.

Snowden flúði frá Hong Kong eftir að bandarísk stjórnvöld gáfu út ákæru á hendur honum fyrir njósnir og þjófnað á eigum ríkisins. Þau óskuðu eftir því að stjórnvöld í Hong Kong myndu handataka hann. Snowden hafði farið þar huldu höfði síðan að hann ljóstraði upp um stórfellt eftirlit bandarískra stjórnvalda með síma- og netnoktun fjölda fólks.

Stjórnvöld í Hong Kong leyfðu hins vegar Snowden að fara til Moskvu þar sem þau töldu sig ekki geta haldið honum á grundvelli eigin laga. Þá hafa bandarísk stjórnvöld ógilt vegabréf hans.

Talið er að hann dveljist að minnsta kosti til morguns í Moskvu en fari þó jafnvel ekki út af flugvellinum. Kristinn á von á að hann komist á áfangastað án vandræða.

„Ég reikna ekki með að það verði nein vandamál fyrir hann í Moskvu enda hafa stjórnvöld þar gefið það svo sem í skyn að þau myndu taka af velvilja jafnvel í hans óskum um hæli þar í landi,“ segir Kristinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×