Menning

Óræður en áþreifanlegur strengur

Magnús Guðmundsson skrifar
Mireya Samper, myndlistarkona opnar sýningu í Listasafninu á Akureyri í dag.
Mireya Samper, myndlistarkona opnar sýningu í Listasafninu á Akureyri í dag.
„Ég vinn mest á pappír á þessari sýningu en það eru þarna bæði tví- og þrívíð verk, gjörningur, hljóðverk og vídeó og dans þannig að við erum alveg að klára þetta,“ segir Mireya Samper um sýninguna Endurvarp sem verður opnuð í Listasafninu á Akureyri í dag.

Sýningin endurspeglar ferli og áhrif sem Mireya hefur unnið með og upplifað, bæði á Íslandi og í Japan, undanfarin misseri. Fjallað er um innri og ytri kosmós, óendanleikann, eilífðina, endurtekninguna og hringrásina – innri og ytri hringrás.

Á sýningunni er að finna innsetningu, tví- og þrívíð verk eftir Mireyu ásamt verkum eftir japönsku gestalistamennina Tomoo Nagaii sem samdi hljóðverk með innsetningunni og vídeóverk eftir Higuma Haruo unnið uppúr samvinnu hans og Mireyu með sömu innsetningu. Þá er einnig japanska gjörningalistakonan Kana Nakamura þátttakandi í sýningunni.

„Ég er búin að vera fjórum sinnum í Japan allt frá 2000 og mislengi hverju sinni. Það kom fyrst þannig til að ég var að sýna á listahátíð á Indlandi þar sem ég kynntist japönskum listamanni sem bauð mér að koma til Japans að sýna á listahátíð þar. Ég heillaðist afskaplega mikið af landinu og menningunni en þó fyrst og fremst listheiminum. Þetta var eitthvað sem togaði sífellt sterkar í mig. Síðan þetta kom til hef ég mikið verið að rannsaka menningu þeirra og list, jafnhliða því að vera að garfa í japönskum efnum og áhrifum.

Svo var ég þátttakandi í stórri samsýningu í Litháen þar sem var mikið af Japönum. Þegar ég var að pakka saman þá gekk hjá virtur sýningarstjóri, leit á verkin mín og sagði: „Þetta er eftir japanskan karlmann.“ Mér fannst þetta afskaplega skemmtilegt en það sýnir eflaust líka hversu mikið þessi menning hefur fallið að því sem ég er að gera.“

Margir hafa á orði að í Japan sé ákaflega hart samkeppnissamfélag þar sem hraði og tækni ráða öllu. En Mireya segist ekki finna mikið fyrir þessu. „Nei, þetta er svo skipt samfélag, en það er helst að þeir Íslendingar sem hafa aldrei komið til Japans finni hjá sér þörf til að segja mér hvernig þetta er,“ segir Mireya og hlær og bætir við: „Listamannasamfélagið virðist ekki vera litað af þessari hörðu samkeppnishyggju. Japanskir listamenn eru ljúfir hver við annan – jafnvel fremur en íslenskir ef eitthvað er. Þeir eru að minnsta kosti lausir við það stress og þau formlegheit sem fólk þekkir kannski frekar úr viðskiptaheiminum.“

Mireya segir að það séu einhver óræð en áþreifanleg tengsl á milli Íslands og Japans, þessara tveggja eldeyja í ólgandi hafinu. „Ég finn mikið fyrir þessum tengslum. Listamenn þessara þjóða virðast eiga það sameiginlegt að vera í sterkum tengslum við náttúruna og menningarsögu sinna þjóða. Þetta er eitthvað sem er farið að miklu leyti í Evrópu og í þessum steinsteypusamfélögum. 

Ég held að þetta sé alveg ómeðvitað en strengurinn er til staðar enda margt sameiginlegt með okkur eins og að vættatrú lifir líka góðu lífi í Japan. Vonandi munu sýningargestir líka finna þennan streng á sýningunni hér fyrir norðan. Hann er vel þess virði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×