Viðskipti innlent

Ólafur tjáir sig ekki um kæru Bakkavararbróður

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Lýður Guðmundsson var sýknaður í málinu sem sérstakur saksóknari sótti.
Lýður Guðmundsson var sýknaður í málinu sem sérstakur saksóknari sótti. Vísir
Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari og fyrrverandi sérstakur saksóknari, tjáir sig ekki um kæru Bakkavararbróðurins Lýðs Guðmundssonar, á hendur fyrrverandi starfsmönnum sérstaks saksóknara. Lýður vill að rannsakað verði hvort starfsmennirnir hafi leynt gögnum.

Rannsóknin sem Lýður vill að verði rannsökuð leiddi til ákæru á hendur honum, sem fyrrverandi stjórnarformanns Vátryggingafélags Íslands, og Sigurði Valtýssyni vegna láns sem VÍS veitti Sigurði árið 2009. Hann var sýknaður með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2014. 

Hefur ekki séð kæruna

„Ég hef ekki séð þessa kæru og get þar af leiðandi ekki tjáð mig. Málinu hefur verið vísað til ríkissaksóknara og ég held að hann veðri að fara í gegnum málið áður en ég get sagt nokkurn skapaðan hlut,“ segir hann.

Lýður var sýknaður eftir að tölvupóstar fundust á milli Bjarna Brynjólfssonar, starfsmanns VÍS, og Sigurðar sem sýndu að það var Bjarni sem tók ákvörðun um framlengingu lánanna ekki Lýður. Hið meinta brot hefði fyrnst á tveimur árum hefði ekki verið fyrir framlenginguna. 

Bjarni hafði um tíma réttarstöðu sakbornings í málinu.

Fundust eftir áskorun lögmanns

Póstarnir fundust eftir að lögmaður Lýðs skoraði á ákæruvaldið að leita að þessum tilteknu póstum. Segir í kæru Lýðs að það sé útilokað annað en að samskipti þessara tveggja sakborninga á tímabilinu hafi verið rannsökuð. 

„Hafi slíkt ekki verið gert hefur rannsóknin ekki verið í samræmi við þá grunnskyldu rannsakandans að hann skuli leita sannleikans,“ segir í kærunni.

Ólafur Þór segir að farið sé yfir öll gögn sem liggja fyrir í hverju máli. 

„Við förum yfir þau gögn sem liggja undir og höfum ákveðnar aðferðir til þess. Ég tel nú rétt að ríkissaksóknari fari yfir þetta og gangi úr skugga um það með hvaða hætti þetta var gert. Ég held að það sé lang eðlilegast,“ segir hann.


Tengdar fréttir

Telur rannsakendur hafa skotið undan gögnum

Lýður Guðmundsson, oft kenndur við Bakkavör, hefur kært fyrrum starfsmenn sérstaks saksóknara til ríkissaksóknara og krafist þess að embættið rannsaki hvort þeir hafi leynt mikilvægum gögnum í tengslum við rannsókn og síðar saksókn sérstaks saksóknara á hendur sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×