Innlent

Óðinn og Malín sýknuð af kröfum fyrrverandi slökkviliðsmanns

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Vísir/Valli
Óðinn Jónsson, fyrrverandi fréttastjóri RÚV, og Malín Brand fréttamaður voru í dag sýknuð fyrir héraðsdómi í meiðyrðamáli sem fyrrverandi slökkviliðsmaður höfðaði á hendur þeim. Maðurinn fór fram á miskabætur og að tiltekin ummæli yrðu dæmd ómerk.

Umfjöllun RÚV sem stefnt var fyrir snérist um að maðurinn sem starfaði þá hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hefði verið dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn barni. Honum var í kjölfarið vikið úr starfi hjá slökkviliðinu. Maðurinn var árið 2003 dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir blygðunarsemisbrot og kynferðislega áreitni gagnvart stúlku.

„Það er auðvitað fagnaðarefni að fá sýknudóm í svona máli og manni sýnist að íslenskir dómstólar eru að draga einhvern lærdóm af dómum mannréttindadómstóls Evrópu í nýlegum málum gegn íslenska ríkinu,“ segir hann og vísar í mál Erlu Hlynsdóttur og Bjarkar Eiðsdóttur.

Glaður fyrir hönd stéttarinnar

„Þetta er bara lítill dómur sem staðfestir að fjölmiðlar þurfi að sinna sínum skyldum í að veita almenningi mikilvægar upplýsingar,“ segir Óðinn og bætir við: „Fréttastofan fór ekki offari í framsetningu á þessum dómi gagnvart þessum manni.“

Óðinn segir að dómurinn hafi þýðingu fyrir stétt frétta- og blaðamanna en dómurinn fellst á það að fréttastofa RÚV hafi aðeins verið að sinna hlutverki sínu. „Ég er óskaplega glaður fyrir hönd stéttarinnar og sérstaklega Malínar Brand sem skrifaði fréttina,“ segir hann.

„Við nafngreindum hann ekki og fórum varlega eins og vera ber, en ég tel umfjöllunin hafi átt fullkomlega rétt á sér og að hún hafi veri hófstillt og sanngjörn,“ segir Óðinn. „Ég segi ekki að þessi dómur komi mér ekki á óvart en ég fagna honum.“

Uppfært klukkan 15.42 þar sem upphaflega mátti skilja fréttina sem svo að manninum hefði verið vikið úr starfi áður en umfjöllun RÚV var birt.


Tengdar fréttir

Fer fram á nafnleynd í meiðyrðamáli gegn RÚV

Fyrirtaka í máli slökkviliðsmanns sem stefnt hefur Malín Brand fréttakonu og Óðni Jónssyni, þáverandi fréttastjóra RÚV, fyrir meiðyrði fór fram öðru sinni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×