Innlent

Ný lög um almannatryggingar verða dýr

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Frá starfamessu 2012. Fleiri heltast úr lestinni vegna örorku á vinnumarkaði en bætast við. Nýju almannatryggingakerfi er ætlað að vinna á móti þróuninni.
Frá starfamessu 2012. Fleiri heltast úr lestinni vegna örorku á vinnumarkaði en bætast við. Nýju almannatryggingakerfi er ætlað að vinna á móti þróuninni. Fréttablaðið/vilhelm
Starf þingnefndar sem vinnur að heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins er langt komin. Pétur H. Blöndal, formaður nefndarinnar, segir smáhlé hafa orðið á störfum hennar, en vinna haldi áfram á vettvangi hennar eftir páska.

Pétur segist hins vegar ekki treysta sér til að lofa því að lög um nýtt almannatryggingakerfi verði tekið til umræðu núna á vorþinginu. „Þetta er ansi viðamikið verk og mikill kostnaður sem fylgir þessu.“ Núna sitji tryggingastærðfræðingur við að reikna út kostnaðinn sem fylgi þeim breytingum sem fyrirséð sé að nefndin leggi til.

Meginkostnaðurinn fylgi hins vegar öðrum þáttum en snúi til dæmis að Virk starfsendurhæfingarsjóði og slíkum úrræðum. „Í heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins eru margir þættir. Eitt er til dæmis veruleg einföldun kerfisins,“ segir Pétur.

Þannig þurfi til dæmis að endurskoða vinnulag í kring um framfærsluuppbót sem tekin var inn í kerfið 2008 rétt fyrir hrun og svo lagfærð í lögunum 2009.

Við breytinguna hafi tekjur þeirra sem lægstar höfðu bæturnar batnað um allt að fimmtung, en á móti hafi svo komið skerðing á tekjum þeirra sem voru betur settir og nutu einnig annarra lífeyrisgreiðslna. Þarna hafi orðið til mikil óánægja. 

„En niðurstaða nefndarinnar er að lífeyrisþegar hafi farið allra hópa best í gegn um hrunið, þrátt fyrir að umræðan sé einhver allt, allt önnur. En um leið skekkti framfærsluuppbótin allt kerfið og gerði það mjög óréttlátt.“ Því fylgi mikill kostnaður að vinda ofan af þessu.

Þá segir Pétur vinnu nefndarinnar miða að því að horfið verði frá kerfi örorkumats og tekið upp starfsgetumat í staðinn. „En forsenda fyrir því er að yfirleitt sé hægt að endurhæfa fólk.“

Þar sé hins vegar til mikils að vinna eins og komið hafi fram í tölum um fjölgun fólks sem þiggur örorkubætur. Þannig hafa forsvarsmenn Virk og samtaka á vinnumarkaði bent á að árlega hverfi nú 12 til 15 hundruð manns af vinnumarkaði vegna örorku. Það séu fleiri en nemi náttúrulegri fjölgun á vinnumarkaði.

Pétur segir nefndina sem hann stýrir vera þriðju þingnefndina sem fjallar um starfsgetumatið. Um sé að ræða þverpólitíska nefnd sem ætlað sé að finna lausnir áður en lagt verður í gerð frumvarps. „En það er búið að vinna ansi mikið í þá veru.“

Áherslurnar aðrar í starfsgetumati

Í kynningu velferðarráðuneytisins frá 2012 á hugmyndum sem þá voru uppi um endurskoðun á lögum um almannatryggingar kemur fram að þegar starfsgetumat kemur í stað örorkumats sé lögð áhersla á getu fólks til að vinna fremur en vangetu.

Þá segir á vef Virk starfsendurhæfingarsjóðs að starfsgetumat sé heildrænt mat sem meti færni einstaklingsins út frá líkamlegum, andlegum og félagslegum forsendum til að taka virkan þátt í samfélaginu. „Það metur styrkleika og hindranir einstaklingsins með tilliti til atvinnuþátttöku og getu hans til að afla sér tekna.“

Lögð sé áhersla á að virkja einstaklinginn, bjóða honum fljótt einstaklingsmiðaða endurhæfingu og fjarlægja vinnuletjandi farartálma. „Litið er á starfsgetumat sem eitt órofa ferli mats annars vegar og virkniaukandi aðgerða og/eða starfsendurhæfingar og meðferðar hins vegar.“



Tengdar fréttir

Upp undir 80 prósent hafa stundað vinnu í veikindum

Ungt fólk er líklegra til þess að mæta veikt í vinnuna en þeir sem eldri eru, að því er sjá má í kjarakönnun BHM. Margir vinna heima í eigin veikindum og/eða veikindum barna sinna. Fáir mæta þó með veikt barn í vinnuna.

Hafna 200 milljónum

Starfsendurhæfingarsjóðurinn VIRK ætlar að hafna þeim 200 milljónum sem honum er ætlaðar í fjörlögum næsta árs.

Arðbærara en sæstrengur

Ríkið veitir yfir einn og hálfan milljarð króna til Virk starfsendurhæfingarsjóðs á árunum 2015 til 2017 samkvæmt nýgerðum samningi. Skref til endurskipulagningar í átt til starfsgetumats í stað örorkubóta.

Nær helmingur blindra og sjónskertra hefur atvinnu

Atvinnuþátttakan er mikil hér miðað við önnur lönd. Eigum samt langt í land með að jafna atvinnuþátttöku blindra og sjónskertra við almenna atvinnuþátttöku hér, segir Halldór Guðbergsson, atvinnu- og virkniráðgjafi.

Segja óvissu fylgja framlaginu

Stjórn starfsendurhæfingarsjóðsins VIRK hefur ákveðið að afþakka 200 milljónir króna sem Alþingi veitti til starfsins í fjárlögum fyrir árið 2015.

Sex af hverjum tíu komnir í vinnu eftir þrjú ár á bótum

Ný rannsókn gefur vísbendingar um að allstór hópur langtímaatvinnulausra hefði getað farið mun fyrr út á vinnumarkaðinn eða í skóla. Sýnir einnig að hópur fólks stundar svarta vinnu á atvinnuleysisbótum.

Mestu máli skiptir að allir fái endurhæfingu við hæfi

Áætlaður kostnaður ríkis og lífeyrissjóða vegna örorkubyrðar á þessu ári er 55 milljarðar króna. Níu prósent fólks á vinnualdri eru öryrkjar sem er með því hæsta sem gerist. ÖBÍ segir úrræði þurfa að vera einstaklingsmiðuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×