Menning

Nei, það er ekki hægt

Magnús Guðmundsson skrifar
Halldór Ragnarsson við verk á sýningunni Útskýringar í Galleríi Gróttu á Seltjarnarnesi.
Halldór Ragnarsson við verk á sýningunni Útskýringar í Galleríi Gróttu á Seltjarnarnesi. Visir/Stefán
Myndlistarmaðurinn Halldór Ragnarsson varð fyrir því fyrr á árinu að missa aleiguna í eldsvoða en síðan þá hefur hann svo sannarlega ekki setið auðum höndum. Síðastliðinn fimmtudag opnaði Halldór einkasýninguna Útskýringar í Galleríi Gróttu.

Halldór lauk MA-gráðu í myndlist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands en áður en hann sneri sér að myndlistinni stundaði hann nám í heimspeki við Háskóla Íslands. „Já heimspekin er eiginlega flöturinn þar sem ég datt inn í myndlistina. Ég hafði alltaf verið eitthvað að bralla í höndunum en ég hugsaði aldrei sem svo að ég ætlaði að gera eitthvað með þetta. Datt það ekki í hug fyrr en ég var kominn inn á þriðja árið í heimspekinni og þá ákvað ég að sækja um í Listaháskólanum og þar endar eiginlega mitt heimspekinám. Ég á alltaf ritgerðina eftir og ég hélt alltaf að ég mundi skrifa hana yfir sumarið en nú er ég hér ellefu árum síðar.“

Bókstaflega

En skyldi margt af því sem Halldór var að fást við í heimspekinni hafa fylgt honum yfir í myndlistina? „Algjörlega. Þetta er kveikjan að flestu sem ég geri og hef verið að fást við. Það snertir mjög mikið tungumálið og málspeki ef ég get orðað það þannig og það eru í raun fyrst og fremst heimspekilegar pælingar.“

Aðspurður hvað sé kjarni sýningarinnar í Gallerí Grótta þá segir Halldór að hann hafi í september verið með sýningu hjá Guðmundi í Listamönnum Galleríi. „Þannig að þetta var mjög knappur tími þarna á milli og að auki lenti ég í þessum bruna í mars síðastliðnum þannig að öll mín plön voru eiginlega farin út um allt. En þegar kom að þessari sýningu með tvo mánuði til stefnu þá gat ég ekki varist þeirri hugsun að þetta væri alltof knappur tími til þess að gera aðra einkasýningu. Ég ákvað samt að gera hana en mér fannst ég þurfa að finna einhverjar útskýringar fyrir sjálfum mér, svona hvernig ég ætlaði að fara að þessu. Þá kem ég að þessari leið að búa til sýningu sem felst í að útskýra verkin sem gerast í rauntíma. Sýningin heitir útskýringar og sem dæmi þá er ég kannski að útskýra að þetta sé strigi sem ég er að vinna með og núna er ég að nota blýant. Þetta stendur bókstaflega á verkinu; núna er þetta blýantur, núna er þetta hvít málning.“

Hlutlægt verður huglægt

Halldór leggur mikla áherslu á að upphafið felist í því að hann sé að útskýra þetta fyrir sjálfum sér til þess að ná utan um það sem hann þurfti að gera. „Þetta er algjörlega það sem gerist á vinnustofunni og útskýringin þarf ekki að vera merkilegri en það, að það eru þrjátíu sentimetrar á milli þessara lína og þá er það bara þannig. 

Landslagsmálari er ekki að útskýra af hverju fjöllin hans eru blá, þannig að ég er dáldið að snúa þessu við. Reyna að útskýra af hverju fjöllin eru blá. Takast á við mörkin á milli innihalds og útkomu.“

Halldór segir að ef það er eitthvað sem hann er fyrst og fremst að skoða sem myndlistarmaður þá sé það áferð og efni. „Oft er það efnið sem lætur mig taka næsta skref, hvort sem það er strigi eða eitthvað annað, en þá er það oft drifkrafturinn að því í hvaða stefnu verkið tekur. Fyrir mér er þetta spurning um að vera með eitthvert ákveðið efni og leitast svo við að gera það að einhverju öðru. Einhverju með aðra eða nýja merkingu. Á þessari sýningu, eins og í öllum mínum sýningum, er ég því að nota mjög mismunandi efni í mín verk og það sem ég er að fást við er að gera hið hlutlæga huglægt. Það er verkefni mitt sem myndlistarmanns.“

Verk á syningunni Útskýringar. Fréttablaðið/Stefán
Staðlað svar

Halldór hefur verið að velta fyrir sér átakinu Við borgum myndlistarmönnum og hann ákvað að taka þar ákveðin skref. „Já, það varð kveikjan að ákveðnu verki enda er þetta búið að vera í hausnum á mér og eflaust mörgum myndlistarmönnum. Þetta er í raun mjög galin hugmynd að þegar myndlistarmaður er að halda sýningu, óháð því hvar það er, þá eru allir að fá borgað fyrir sína vinnu nema listamaðurinn. Fólkið er samt að koma til þess að sjá verk listamannsins. En þetta er eitthvað svo venjuleg pæling hjá þessari þjóð. Þessi hugsun að þetta hafi bara alltaf verið svona og eigi bara að vera það áfram.

Út frá þessu þá sendi ég forstöðumanni menningarsviðs Seltjarnarnesbæjar fyrirspurn, til þess að fá staðlaða svarið, því ég vissi alveg að það kæmi. Ég spurði hvort að það væri greidd einhver laun fyrir þetta eða efniskostnaður og ég vissi að ég fengi mjög staðlað: Nei, það er ekki hægt. Út frá því ákvað ég að gera verk og þetta var svona fyrsta kveikjan að því hvernig ég nálgaðist og vann þessa sýningu. Í þessu verki er ekkert innihald. Það er bara tölvupóstssvar en ég er búinn að vinna það eins og það væri verk. Út frá þessu kom þessi útskýringapæling. Ég nota alltaf texta í minni myndlist en ef maður sleppir því og gerir þetta bara þurrpumpulega þá myndast ákveðin tenging. En þetta er allt þarna inni á sýningunni og ég vona bara að fólk komi að sjá þetta.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×