Erlent

Nauðgað í Dúbaí og dæmd í fangelsi

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Vinnuferð Marte Deborah Dalelv til Dúbaí breyttist skyndilega í martröð.
Vinnuferð Marte Deborah Dalelv til Dúbaí breyttist skyndilega í martröð.
Norsk kona var dæmd í 16 mánaða fangelsi fyrir að stunda kynlíf utan hjónabands þegar hún leitaði til lögreglu í Dúbaí eftir að hafa verið nauðgað í borginni.

Hin 25 ára gamla Marte Deborah Dalelv fór í vinnuferð til Dúbaí í mars síðastliðnum. Eitt kvöldið fór hún út á lífið og endaði það illa. Henni var nauðgað.

Lögregluþjónar sem hún leitaði til sögðust ekki trúa henni, tóku af henni vegabréfið og vörpuðu í fangaklefa á þeim forsendum að hún hafi stundað kynmök án þess að vera gift og drukkið áfengi án heimildar. Þá héldu þeir því fram að hún hafi leitað til lögreglunnar vegna þess að hún hafi ekki verið nógu ánægð með kynlífið.

Konunni var sleppt úr haldi eftir að hafa fengið að dúsa í fjóra daga í köldum fangaklefa og hefur verið í farbanni síðan. Noregur er ekki með framsalssamning við Dúbaí og því lítur allt út fyrir að hún eigi sér engrar undakomu auðið og byrji að afplána dóminn í fangelsi í Dúbaí í næstu viku.

Saga Marte er ekki einsdæmi. Fyrr á árinu var ung áströlsk kona dæmd í átta mánaða fangelsi eftir að hafa leitað til lögreglu vegna hópnauðgunar sem átti sér stað á hóteli í Dúbaí.

Í Sameinuðu arabísku furstadæmunum eru menn aðeins sakfelldir fyrir nauðganir ef þeir játa verknaðinn, eða ef fjórir karlkyns múslimar verða vitni að glæpnum. Samkvæmt Sharia –lögunum, sem eru við gildi í furstadæmunum, er kynlíf utan hjónabands stranglega bannað. Þá geta ógift pör sem haldast í hendur á almannafæri átt þunga refsingu yfir höfði sér.

Frá þessu er greint á vef Daily Mail.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×