Innlent

Mörgum sinnum betri kostur en að setja spítalann á hliðina

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans.
Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans. Mynd/Anton
Nýr stofnanasamningur sem undirritaður var milli hjúkrunarfræðinga og Landspítalans í gær var kynntur fyrir hjúkrunarfræðingum í dag.

Samningurinn felur í sér frá tæplega fimm og upp í 9,6 prósenta launahækkun sem dreifist eftir menntun og starfsreynslu en auk þess hefur spítalinn kveðið að greiða út svokallaða álagsgreiðslu afturvirkt í tvo mánuði, en hún er frá fimmtán og upp í þrjátíu þúsund krónur á mánuði og þurfa hjúkrunarfræðingar sem sagt hafa upp að draga uppsögn sína til baka fyrir miðnætti á morgun til að fá greiðsluna.

„Áherslan er á það að allir fái sambærilegt í grunninn og síðan náðum við inn þeirri áherslu sem við höfum verið að vinna að lengi að viðbótarnám sé betur metið til launa og við náðum ágætum árangri þar,“ segir Elsa B. Friðfinnsdóttir formaður félags hjúkrunarfræðinga í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Ríkið leggur til samtals rúmar fjögur hundruð milljónir en spítalinn þarf að standa straum af viðbótarhækkunum. Björn Zoëga, forstjóri spítalans, segir það vera hátt í tvö hundruð milljónir til viðbótar.

„Við ákváðum að ef þetta yrði til þess að deilan myndi leysast þá er það mörgum sinnum betri kostur en að setja spítalann á hliðina, að reyna að eyða næstu mánuðum í það að finna þetta fé," segir Björn og bætir við að fjármunirnir ekki koma úr frekari hagræðingaraðgerðum. „Við verðum að finna þetta fé annars staðar. Fresta einhverjum hlutum, ákvörðunum, eða fá meira fé frá ríkinu enda erum við rekin fyrir ríkisfé.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×