Erlent

Morðinginn í Trollhättan var kynþáttahatari

Gunnar Reynir Valþórsson og Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifa
Á myndinni, sem nemandi við skólann tók í gær, sést morðinginn með nemendum við skólann rétt áður en hann gerði árásina.
Á myndinni, sem nemandi við skólann tók í gær, sést morðinginn með nemendum við skólann rétt áður en hann gerði árásina. Vísir/AFP
Maðurinn sem réðst inn í barnaskóla í Trollhättan í Svíþjóð í gær vopnaður sverði er talinn hafa verið drifinn áfram af kynþáttahatri. Sænskir miðlar fjalla ítarlega um málið.

Hann myrti tvo og særði tvo aðra sem nú berjast fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi. Lögreglustjórinn Niclas Hallgren segir að við leit á heimili mannsins, og miðað við það hvernig hann hagaði sér á meðan á árásinni stóð bendi allt til þess að maðurinn, sem lést af völdum skotsára lögreglu í gær, hafi verið kynþáttahatari. Hann á að hafa haft mikinn áhuga á Hitler, hægri öfgahreyfingum og nasisma. Það hefur þó ekki verið staðfest að maðurinn hafi nokkra tengingu við hægri öfgaflokka í Svíþjóð.

Fimmtán ára drengur sem særðist í árásinni í gær vaknaði í morgun og er ástand hans stöðugt. Hinn sem slasaðist var fullorðinn maður en ástand hans er alvarlegra.

Maðurinn, sem var tuttugu og eins árs gamall, stillti sér upp á myndum með nemendum skólans vopnaður sverðinu og með grímu og hjálm á höfði, áður en hann lét til skarar skríða. Nemendurnir héldu að hann væri í grímubúningi. Nafn mannsins hefur ekki verið gert opinbert en hann mun hafa verið búsettur í Trollhättan.

Á sunnudag klukkan tvö hyggjast íbúar Trollhättan halda þögn í eina mínútu fyrir fórnarlömb árásármannsins. Ekki er vitað hvers vegna árásarmaðurinn kaus að ráðast inn í þennan tiltekna skóla, Kronan. Sænskir miðlar segja líklegt að það sé vegna þess að hann er á svæði þar sem búa margir innflytjendur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×