Innlent

Mikilvægt að skapa ekki skaðabótaskyldu ef gjaldtakan reynist ólögleg

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Haukadalnum í dag.
Frá Haukadalnum í dag. Vísir/Pjetur/Aðsend
Stjórn Félags leiðsögumanna styður ekki gjaldtöku á ferðamannastöðum sem lagaleg óvissa ríkir um og brýnir fyrir félagsmönnum sínum að taka ekki þátt, á einn eða annan hátt, í slíkri gjaldtöku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

„Á meðan ekki er á kláru hvort það sé lagalega rétt hvort hefja megi gjaldtöku, þá getum við ekki annað en að biðja félagsmenn okkar um að fara varlega í að taka þátt í þessu,“ segir Örvar Már Kristinsson, formaður Félags leiðsögumanna.

Stjórnin hvetur jafnframt til þess að lokið verði sem allra fyrst þeirri vinnu sem snýr að útfærslu náttúrupassa sem heildstæðri, ásættanlegri lausn fyrir ferðaþjónustuna.

Aðspurður að því í hverju það felist að taka ekki þátt í gjaldtökunni segir Örvar: „Til dæmis ekki taka gjald í rútum og ekki rukka sjálf. Heldur láta fólkið fara í röðina og borga sjálft þar. Því ef gjaldtaka stenst ekki lög ertu líklega orðinn meðsekur ef þú hefur tekið við greiðslu.“

„Við viljum að okkar félagsmenn segi satt og rétt frá hvernig staða mála er. Það er óvissa um hvort að landeigendur megi stunda þessa gjaldtöku. Ríkið segir nei og á meðan þessi óvissa er verðum við að verja okkar félagsmenn.“

„Þetta finnst okkur vera eðlilegasta leiðin, á meðan þessi óvissa er. Helst það að okkar félagsmenn skapi sér ekki skaðabótaskyldu,“ segir Örvar að lokum.

Vísir/Pjetur
Vísir/Pjetur
Vísir/Pjetur

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×