Erlent

Malala gefur verðlaunafé til uppbyggingar á Gaza

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Malala Yousafzai segir að án menntunar verði aldrei friður.
Malala Yousafzai segir að án menntunar verði aldrei friður. Vísir/Getty
Malala Yousafzai, handhafi friðarverðlauna Nóbels í ár og yngsti handhafi verðlaunanna frá upphafi, mun gefa 50.000 Bandaríkjadali sem hún hlaut í verðlaunafé til Sameinuðu þjóðanna sem nota á til uppbyggingar á skólum á Gaza. Margar skólabyggingar þar skemmdust mikið í stríði Ísraels og Palestínu fyrr á árinu. Telegraph greinir frá.

Malala var í Stokkhólmi að taka við öðrum verðlaunum, Alþjóðaverðlaunum barna, þegar hún tilkynnti um að hún ætlaði að gefa peningana.

„Saklaus palestínsk börn hafa þjáðst hrikalega og í alltof langan tíma,“ sagði Malala í Stokkhólmi. „Við verðum að tryggja að allir palestínskir drengir og allar palestínskar stúlkur, og í raun öll börn alls staðar, hljóti góða menntun í öruggu umhverfi. Því án menntunar, verður aldrei friður.“

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Malala Yousafzay barist fyrir rétti stúlkna til að mennta sig í Pakistan. Með því hefur hún sýnt fram á að ungt fólk getur tekið þátt í baráttu fyrir auknum réttinum. Með hetjulegri baráttu sinni er hún orðin einn helsti talsmaður ungra kvenna sem vilja mennta sig.


Tengdar fréttir

Hver eru Kailash og Malala?

Friðarverðlaun Nóbels 2014 voru veitt þeim Kailash Satyarthi og Malala Yousafzai fyrir baráttu þeirra gegn barnaþrælkun og auknum réttindum ungmenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×