Innlent

Líkur á samstarfi aukast

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Bjarni Ben, Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson skunda í átt að viðræðum
Bjarni Ben, Óttarr Proppé og Benedikt Jóhannesson skunda í átt að viðræðum Vísir/Vilhelm/Anton
Líkur á samstarfi Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartar framtíðar í ríkisstjórn hafa aukist að nýju. Formenn flokkanna ræddust við í gær og þykir ekki ólíklegt að þeir hefji aftur formlegar stjórnarmyndunarviðræður. RÚV greinir frá þessu.

Óformlegar þreifingar hafa verið á milli flokkanna síðan Katrín Jakobsdóttir skilaði umboði sínu til stjórnarmyndunar aftur til forseta Íslands síðastliðinn föstudag. Katrínu tókst ekki að mynda þá fimm flokka ríkisstjórn sem henni þótti vænlegust en sú stjórn hefði legið frá vinstri til miðju.

Í samtali við Heimi Má Pétursson í Víglínunni á Stöð 2 í gær sagðist hún þó hafa reynt sitt besta en að flokkarnir hefðu verið ólíkir, ekki einungis málefnalega heldur einnig „menningarlega“.

Formenn flokkanna hafa ekki sagt margt opinberlega og erfitt hefur reynst að ná í þá og fá skýr svör. Gera má ráð fyrir að tíminn sem liðið hefur frá kosningum hafi hvatt formenn flokkanna að koma opnari að samningsborðinu og vera tilbúnir að gera málamiðlanir, annars glitti í stjórnarkreppu.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hafði lagt áherslu í samtölum sínum við formennina að stjórnmálafólk yrði að rísa undir þeirri ábyrgð sem á herður þeirra væri lagt enda væri mikilvægt að í landinu væri mynduð ríkisstjórn. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem hann hélt síðasta föstudag.

Samkvæmt fréttastofu RÚV hafa Vinstri græn og Samfylkingin ekki átt í formlegum viðræðum við neinn um helgina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×