Viðskipti innlent

Kvenstjórnendum finnst gerðar meiri kröfur til sín

Sæunn Gísladóttir skrifar
Dagný Jónsdóttir segir konurnar hafa talað um að þetta væri val sem veitti þeim mikla starfsánægju.
Dagný Jónsdóttir segir konurnar hafa talað um að þetta væri val sem veitti þeim mikla starfsánægju. Vísir/Getty
„Tímastjórnunin kom mér á óvart. Þessar konur hafa þurft að hafa rosalega fyrir hlutunum, eins og allir sem komast í þessar stöður, en þær tala um að þetta sé val sem veitir þeim starfsánægju. Þegar þú ert komin í þessa stöðu þá lærirðu tímastjórnun þannig að þetta henti þínum aðstæðum og fjölskyldu og svo framvegis. Þetta er þá ekki eins mikið mál og margir halda,“ segir Dagný Jónsdóttir.

Hún skrifaði meistaraverkefni í for­ystu og stjórn­un við Há­skól­ann á Bif­röst þar sem hún rann­sakaði tíu kon­ur í æðstu stöðum í fjár­mála­geir­an­um. Rann­sókn­ar­spurn­ingin var: „Hvernig upp­lifa kon­ur í for­ystu í fjár­mála­geir­an­um á Íslandi hlut­verk sitt og stöðu sem kven­leiðtog­ar þar sem karl­menn eru í meiri­hluta?“

Komu fram undir dulnefni

„Af því að þær koma fram undir dulnefnum getur verið að ég hafi náð fram góðum upplýsingum og svörum. Þær eru áhugasamar um aukið jafnrétti fyrir alla,“ segir Dagný.

Dagný Jónsdóttir
Dagný segir að ákveðið vandamál sé að fáir viti hverjar þær konur sem hafa eitthvað fram að færa eru. Þetta komi til dæmis fram þegar verið sé að ræða hvaða konur eigi að tilnefna í stjórn. Konur eru oft ekki með sama tengslanet og karlmenn.

„Margar konur sjá líka ekki virðið í því að standa upp frá skrifborðinu. Þær eru rosalega duglegar að vinna vinnuna sína við skrifborðið, en eru ekki jafn duglegar og karlar að fara á fundi, ráðstefnur og fara á golfvöllinn jafnvel til að efla tengsla­netið. Tækifærin koma ekki til þeirra í vinnunni. Konurnar töluðu um það að þær þurfi að huga meira að þessum þáttum. Þær eru flestar mjög meðvitaðar um að byggja upp tengslanetið sitt. Þetta er ekki bara gott fyrir konurnar persónulega, þetta skilar sér líka í rekstur fyrirtækisins,“ segir Dagný.

Dagný sagði konurnar einnig finna fyrir auknum kröfum til sín bæði frá karl- og kvenstjórnendum; kvenmenn gera kröfur um að þær sýni þeim meiri skilning og séu vinkonur, en bæði kynin gera meiri kröfu um tilfinningagreind. Dagný segir konurnar mjög jákvæðar um jafnskiptingu á heimilishaldi. „Innviðir á Íslandi bjóða upp á það að báðir foreldrar vinni kröfuhörð störf, þetta er ekki í boði víða erlendis.“

Konurnar töluðu einnig um að grípa þau tækifæri sem bjóðast og segja ekki nei við verkefnum. Þær töluðu einnig um launamun kynjanna, sem er meiri í fjármálageiranum en öðrum greinum.


Tengdar fréttir

Ekki nóg að vera betri en önnur lönd

Edda Hermannsdóttir og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir gefa í byrjun næsta árs út viðtalsbók um jafnréttismál í atvinnulífinu.

Hrekja mýtuna um að konur segi nei

Hulda Bjarnadóttir hefur verið framkvæmdastjóri FKA í fimm ár. Hún segist hafa upplifað mikla vitundarvakningu á tímabilinu.

Lykillinn er að huga að upphafi starfsferils kvenna jafnt og karla

Karlar fá forskot í sínum fyrstu skrefum á vinnumarkaði. Þannig eru konur alltaf skrefi á eftir og eiga erfiðara með að verða æðstu stjórnendur, samkvæmt nýrri rannsókn. Fyrirtæki þurfa að sjá hag sinn í að koma konum áfram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×