Viðskipti innlent

Konur með 30% lægri meðaltekjur

Sæunn Gísladóttir skrifar
Óleiðréttur launamunur mældist 17 prósent árið 2015 en hann byggir á reglulegu tímakaupi með yfirvinnu í samræmi við aðferð evrópsku hagstofunnar Eurostat.
Óleiðréttur launamunur mældist 17 prósent árið 2015 en hann byggir á reglulegu tímakaupi með yfirvinnu í samræmi við aðferð evrópsku hagstofunnar Eurostat. Vísir/Getty
Árið 2015 voru konur með tæplega 30 prósent lægri atvinnutekjur en karlar en þá er átt við allar tekjur af atvinnu án tillits til vinnutíma. Samanburður á meðallaunum karla og kvenna í fullu starfi árið 2015 sýnir hins vegar um 20 prósent mun á heildarlaunum en um 14 prósent mun á reglulegum launum án yfirvinnu, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Óleiðréttur launamunur mældist 17 prósent árið 2015 en hann byggir á reglulegu tímakaupi með yfirvinnu í samræmi við aðferð evrópsku hagstofunnar Eurostat.

Atvinnutekjur hæstar á aldursbilinu 45-49 ára hjá bæði körlum og konum

Árið 2015 var helmingur kvenna með lægri atvinnutekjur en 3,7 milljónir króna á ári en helmingur karla með minna en 5 milljónir króna. Meðaltekjur af atvinnu taka til allra atvinnutekna án tillits til vinnutíma en karlar vinna að jafnaði fleiri vinnustundir en konur. Meðalfjöldi vikulegra vinnustunda var að jafnaði 44,1 klukkustund hjá körlum en 35,5 hjá konum árið 2015 samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands.

Tekjur vegna atvinnu voru árið 2015 hæstar á aldursbilinu 45 til 49 ára hjá bæði körlum og konum. Á því aldursbili voru karlar hins vegar með mun hærri atvinnutekjur að meðaltali en konur eða 8,1 milljón krónur á ári samanborið við 5,5 milljónir króna hjá konum.

Vinnutími skýrir að hluta til hærri heildarlaun karla en kvenna fyrir fullt starf. Karlar í fullu starfi unnu að jafnaði meira en konur í fullu starfi og voru greiddar stundir karla að meðaltali 189 á mánuði árið 2015 en greiddar stundir kvenna 179,7 samkvæmt launarannsókn Hagstofunnar. Þannig var minni munur á launum eftir kyni ef horft er til reglulegra launa án yfirvinnu árið 2015. Konur í fullu starfi voru þá að meðaltali með 458 þúsund krónur á mánuði en karlar 534 þúsund krónur og var launamunurinn því um 14 prósent. Ef skoðuð voru regluleg laun með yfirvinnu var munurinn um 18 prósent.

 

 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×