Innlent

Isavia segir óhætt að loka þriðju flugbraut Reykjavíkurflugvallar

Birgir Olgeirsson skrifar
Þirðja braut Reykjavíkurflugvallar hefur verið lokuð á löngum köflum í sumar því hún hefur verið notuð sem flugvélarstæði fyrir einkaþotur.
Þirðja braut Reykjavíkurflugvallar hefur verið lokuð á löngum köflum í sumar því hún hefur verið notuð sem flugvélarstæði fyrir einkaþotur. Vísir/Pjetur
Isavia telur óhætta að loka þriðju braut Reykjavíkurflugvallar þegar horft er til viðmiða Alþjóða flugmálastofnunarinnar. Þetta kemur fram í fréttabréfi frá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra sem segir borgina hafa fengið kynningu á öryggisúttekt Isavia, sem annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi, í vikunni.

Dagur segir fleira fróðlegt hafa komið fram í þessari kynningu, meðal annars það að brautin hefur verið lokuð á löngum köflum í sumar því hún hefur verið notuð sem flugvélarstæði fyrir einkaþotur. Notkunarstuðull á vellinum án þriðju brautar reiknast 97% en alþjóðlegt viðmið er að hann eigi ekki að fara niður fyrir 95%.

Í fréttabréfinu segir Dagur að þegar metnar eru raunverulegar aðstæður, byggt á nákvæmum og vindmælingum, ástandi flugbrautar, skyggni og skýjahæð og raunverulegri notkun í innanlandsflugi og sjúkraflugi er nýting vallarins miðað við að þriðju brautinni sé lokað enn betri, eða vel yfir 98 prósent.

Sýnir öryggisúttektin þannig að með mildunarráðstöfunum sé ásættanlegt að loka þriðju brautinni. Dagur segir mikilvægt að það gangi eftir, í samræmi við samninga ríkis og borgar þar um á undanförnum árum, nú síðast samning Reykjavíkurborgar og ríkisins sem var samþykktur einróma í borgarráði þann 31. október 2013.


Tengdar fréttir

Hvassahraun afleitt flugvallarstæði

Flugvöllur í Hvassahrauni er áratuga gömul hugmynd og hefur verið sannreynt að hún er ómöguleg, segir Ómar Ragnarsson.

Flugbraut 24 tók við níu flugvélum í dag

Reykjavíkurflugvöllur gegndi óvenju fjölskrúðugu hlutverki í dag, þegar hvöss suðvestanátt með dimmum éljum gerði ólendandi í Keflavík um tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×