Enski boltinn

Hvað hefur gerst í kynferðisofbeldismálinu á Englandi?

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
vísir/getty
Það eru tæpar þrjár vikur síðan Andy Woodward, fyrrum varnarmaður Crewe, steig fram og opinberaði að hann hefði verið kynferðislega misnotaður er hann var táningur í fótbolta. Þessi játning hans opnaði flóðgáttir.

Yfir 20 knattspyrnumenn hafa stigið fram í kjölfarið og greint frá því að hafa einnig verið misnotaðir. Flestir af þjálfurum sínum.

Í samantekt enska knattspyrnusambandsins kemur fram að 350 manns hafi gefið sig fram og sagst vera fórnarlömb kynferðislegrar misnotkunar í fótboltanum. 55 knattspyrnufélög eru nú tengd við kynferðisbrot gegn iðkendum sínum.

Formaður enska knattspyrnusambandsins, Greg Clarke, segir að þetta sé stærsta vandamál sem fótboltinn í landinu hefur glímt við.

Það eru ekki bara þjálfarar sem hafa verið sakaðir um að misnota leikmennina. Njósnari á vegum Chelsea hefur einnig verið ásakaður um níð og félagið mútaði fórnarlambinu í von um að þagga niður í því. Síðast fékk fórnarlambið greiðslur í fyrra en steig samt fram á dögunum.

Talað hefur verið um að barnaníðið hafi verið skipulagt hjá mörgum. Níðingarnir hafi verið í samskiptum og nýtt upplýsingar frá hvor öðrum.

Enska knattspyrnusambandið hefur hafið sína eigin rannsókn á öllum ásökununum. Verður áhugavert að sjá hvað kemur úr þeirri rannsókn.

Svo var opnuð neyðarlína fyrir fórnarlömb og þar sprakk síminn nánast um leið og hann var opnaður.

Vandamálið er greinilega risastórt og sér ekki fyrir endann á þessu máli. Það mun halda áfram næstu mánuði og fastlega má búast við því að enn fleiri muni stíga fram.


Tengdar fréttir

Fengu 860 símtöl fyrstu vikuna

Neyðarlínan sem var opnuð fyrir fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis í enska boltanum hefur heldur betur verið vel nýtt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×