Innlent

Huldumaður kom Dolla til bjargar á elleftu stundu

Bjarki Ármannsson skrifar
Radio Iceland var hleypt af stokkunum í febrúar.
Radio Iceland var hleypt af stokkunum í febrúar. Vísir/Ernir
Fregnir af lokun útvarpsstöðvarinnar Radio Iceland voru heldur ótímabærar, samkvæmt Adolfi Inga Erlingssyni útvarpsstjóra. Vegna fjárhagsvanda stöðvarinnar stóð til að hætta útsendingu á miðnætti en Adolf Ingi segir að fyrir um það bil klukkutíma hafi verið gengið frá samkomulagi við utanaðkomandi fjárfesti sem tryggi að stöðin geti haldið áfram rekstri, í bili að minnsta kosti.

„Við getum sagt að forsendur hafi aðeins breyst til hins betra,“ segir Adolf Ingi, eða Dolli eins og hann er oft kallaður. „Fólk virðist ekki vilja sjá okkur hætta útsendingu og við fengum fjárfesti inn sem vill taka þátt í þessu.“

Dolli vill ekki greina frá því hver bjargvætturinn er, en segir hann einn margra sem höfðu samband í kjölfar frétta af því að stöðin myndi hætta útsendingu.

Radio Iceland var hleypt af stokkunum í febrúar og er hún fyrst og fremst ætluð erlendum ferðamönnum. Adolf Ingi sagði í samtali við Vísi í dag að hann hægt hafi gengið að ná inn tekjum og að hann sæi einfaldlega ekki fram á að geta fjármagnað stöðina lengur.

„Þetta breytir forsendum það mikið að við ætlum að láta á það reyna,“ segir Dolli. „Við erum ekkert langt frá því að stöðin nái að standa undir sér í dag, það sem er vandamálið er uppsöfnuð skuld frá því að við byrjuðum.“

Adolf Ingi segist stefnt að því á næstu mánuðum að stöðin nái að standa undir sér. Það verði bara að koma í ljós hvort það takist eða hvort stöðin haldi bara starfsemi sinni áfram í einhverja stund.

„Það voru allavega ekki allir sem vildu sjá hana dauða,“ segir Dolli. „Við höfum fundið fyrir gríðarlegri velvild í dag og við munum halda áfram. Við erum bjartsýn á að þetta gangi.“


Tengdar fréttir

Radio Iceland komin í loftið

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar-og viðskiptaráðherra, setti stöðina í loftið í hádeginu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×