Innlent

Holunum fækkar á Vestfjarðavegi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Gísli Eysteinsson, verkstjóri hjá Suðurverki. Nýja brúin yfir Kjálkafjörð í baksýn.
Gísli Eysteinsson, verkstjóri hjá Suðurverki. Nýja brúin yfir Kjálkafjörð í baksýn. Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Nýr fjögurra kílómetra vegarkafli á sunnanverðum Vestfjörðum með bundnu slitlagi var opnaður umferð í fyrsta sinn fyrir verslunarmannahelgi. Kaflinn er  við vestanverðan Kerlingarfjörð í Austur-Barðastrandarsýslu, undir Litlanesfjalli, þar sem vinnubúðir verktakans, Suðurverks, eru staðsettar. Undirverktaki, Borgarverk, lauk á fimmtudag við að leggja fyrri umferð bundins slitlags á kaflann. 

Þetta er fyrsti áfanginn sem tekinn er í notkun í umfangsmiklum endurbótum á 24 kílómetra kafla Vestfjarðavegar um Kjálkafjörð, Kerlingarfjörð og Mjóafjörð. Tveir fjarðanna verða þveraðir, sem þýðir átta kílómetra styttingu þjóðvegarins, þannig að í stað 24 kílómetra holótts malarvegar kemur 16 kílómetra malbiksvegur. 

Stefnt hafði verið að því að opna brúna yfir Kjálkafjörð fyrir verslunarmannahelgi. Það markmið náðist ekki og vonast Gísli Eysteinsson, verkstjóri Suðurverks, nú til þess að hægt verði að opna Kjálkafjarðarbrúna í byrjun september. Lokaáfanginn, brúin yfir Mjóafjörð, verði svo opnaður í kringum mánaðamótin október-nóvember. Að undanskildum jarðgöngum er þetta langstærsta verkefni í vegagerð hérlendis eftir hrun.


Tengdar fréttir

Útlendingar aldrei séð aðra eins vegi

Vondir vegir koma í veg fyrir að unnt sé að byggja upp heilsársferðaþjónustu á Vestfjörðum, segja eigendur Hótels Flókalundar, sem aðeins hafa opið yfir sumartímann.

Fækka malarköflunum til Patreksfjarðar um helming

Stærsta verk sem Vegagerðin hefur ráðist í eftir hrun, þverun tveggja fjarða á Vestfjörðum, er komið í fullan gang. Þegar verkinu lýkur fækkar síðustu malarköflunum milli Patreksfjarðar og Reykjavíkur um helming.

Brú yfir Kjálkafjörð opnuð fyrir verslunarmannahelgi

Einn vestfirsku fjarðanna, Kjálkafjörður, er að lokast þessa dagana með vegfyllingu, og það var rétt eins og opnað væri fyrir flóðgátt þegar sjónum var í fyrsta sinn hleypt undir nýju brúna yfir fjörðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×