Fótbolti

Heimir þjálfaði á Shellmótinu 2006 þegar Lars var á HM | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands í fótbolta, hefur náð langt á síðasta áratug. Fyrir nánast sléttum tíu árum stýrði hann ungum fótboltastrákum á Shellmótinu í Eyjum og sama ár tók hann við meistaraflokk ÍBV um mitt sumar í erfiðri stöðu en liðið féll.

„Mér fannst frábært að þjálfa sjötta flokk karla hjá ÍBV. Það var einn af mínum skemmtilegustu tímum að þjálfa stráka og stelpur og svo meistaraflokk karla,“ segir Heimir í samtali við íþróttadeild 365.

„Mér hefur aldrei liðið illa á þeim stað sem ég er. Svo tekur KSÍ við og tekur mig í liðveislu. Ég fer úr því að vera aðstoðarþjálfari í að vera meðþjálfari og taka svo við landsliðinu. Mér finnst eins og ég sé leiddur í gegnum þetta af einhverjum öðrum.“

Heimir kom Eyjamönnum aftur upp í Pepsi-deildina árið 2008 og var í titilbaráttu með ÍBV 2010-2012 áður en hann gerðist aðstoðarþjálfari Lars Lagerbäck hjá íslenska landsliðinu. Það er ekki ofsögum sagt að segja það samstarfi hafi verið frábært.

Það er óhætt að segja að Heimir hafi náð ansi langt á síðasta áratug en þegar hann var að þjálfa á Shellmótinu 2006 var Lars Lagerbäck á sínu fjórða stórmóti af fimm með Svíana en Lars er nú mættur á sitt sjöunda stórmót. Reynsla hans hefur hjálpað Heimi mikið að þróast sem þjálfari.

„Ég reyni að læra að öllum sem ég kem nálægt. Ég held að það sé þannig í lífinu að þú ert heppnari eftir því sem þú veist meira og lærir meira. Ég reyni bara að njóta staðar og stundar,“ segir Heimir Hallgrímsson.

Allt innslagið má sjá í spilaranum hér að ofan.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

Aron Einar: Tilfinningin ólýsanleg

"Þetta er bara ólýsanlegt,“ sagði fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson á blaðamannafundi íslenska liðsins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×