Viðskipti innlent

Gríðarleg fjölgun byggingakrana vísbending um nýja fasteignabólu?

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Byggingakrönum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað verulega á síðustu misserum. Yfirverkfræðingur hjá Ístaki segir að byggingaiðnaðurinn hafi tekið við sér á síðastliðnu ári en ný bóla á fasteignamarkaði sé ekki í uppsiglingu. Hagfræðiprófessor varar við of hraðri uppbyggingu.

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa ef til vill tekið eftir allnokkurri fjölgun á byggingakrönum á síðustu misserum sem spretta upp um alla borg. Undanfarin ár hefur Fréttablaðið staðið fyrir talningu á byggingakrönum sem getur gefið vísbendingar um efnahagshorfur á Íslandi.

Bandaríski hagfræðingurinn Robert Aliber kom hingað til land í maímánuði árið 2008. Þegar hann sá alla þá byggingakrana sem bar við loft í Reykjavík þá spáði hann falli íslensku bankanna. Ísland væri fast í byggingabólu sem hlyti að springa. Getur sagan endurtekið sig?

„Það er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af hruni,“ segir Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. „Hins vegar er alltaf ástæða til að hafa áhyggjur af efnahagspóitíkinni. Það er þegar bylgjan er að fara upp sem það er hægt að gera eitthvað til þess að hún verði ekki of kröpp þegar hún fer niður og valdi ekki skaða.“

„Ef við förum að horfa á sívaxandi fjölgun byggingakrana þá er rétt að fara að velta því fyrir sér hvort einhverjir séu að taka rangar ákvarðanir,“ segir Þórólfur.

Byggingaiðnaðurinn loks að taka við sér

Hermann Sigurðsson, yfirtæknifræðingur hjá Ístaki, segir að byggingaiðnaðurinn sé loks farinn að taka við sér eftir döpur ár. Hröð fjölgun byggingakrana gefi þó ekki vísbendingar um nýja bólu á fasteignamarkaði.

„Það má mikið ske í viðbót svo að svo verði,“ segir Hermann. „Í dag er verið að byggja nokkurn veginn þann fjölda af íbúðarhúsnæði sem þarf að byggja á hverju ári.“

Hagfræðingar nota stundum kranavísitölu, þ.e.a.s. fjölda þeirra byggingakrana sem eru notkun, til að meta stöðuna í efnhagslífinu. Þórólfur viðurkennir að til séu betri aðferðir til útreikninga en vísitalan sé þó marktæk. Hermann segir fjölgun byggingakrana eiga sér eðlilegar skýringar.

„Í dag byggir þú varla bílskúr án þess að reisa byggingakrana. Þeir eru orðnir léttari en áður, meðferðilegri og auðveldari í uppsetningu. Vísitalan getur verið dálítið skökk af þessum sökum en hún gefur vissulega ákveðna vísbendingu.“


Tengdar fréttir

Kranavísitalan rís upp úr öskunni

Byggingakranar spretta upp eins og gorkúlur á höfuðborgarsvæðinu. Útreikningar Seðlabankans sýna fylgni á milli fjölda krana og fjárfestinga á íbúðamarkaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×