Erlent

Segja stungu­á­rásina vera hryðju­verk

Bjarki Sigurðsson skrifar
Skjáskot úr streyminu.
Skjáskot úr streyminu.

Lögreglan í Sydney, stærstu borgar Ástralíu, segir stunguárásina í Christ The Good Shepherd-kirkjunni í gær hafa verið hryðjuverk. Fjórir slösuðust í árásinni sem beint var að presti kirkjunnar. 

Presturinn, Mar Mari Emmanuel, var með morgunmessu í kirkjunni þegar ungur karlmaður, sem sagður er vera einungis sextán ára gamall, gekk upp að honum og réðst á hann vopnaður hnífi. Eftir atlöguna yfirbuguðu gestir kirkjunnar manninn en við það náði hann að særa þrjá aðra lítillega. Hann var síðan handtekinn skömmu síðar.

Mari Emmanuel er vinsæll á samfélagsmiðlum og var morgunmessunni streymt á veraldarvefnum þar sem alltaf að milljón manns fylgjast með hverri athöfn. Myndband af árásinni úr streyminu hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum. 

Í grein breska ríkisútvarpsins segir að lögreglan í Sydney telji árásina hafa verið hryðjuverk. Árásarmaðurinn hafi verið öfgamaður en lögreglan neitar að gefa upp hvaða trúarbrögð maðurinn aðhylltist. 

Klippa: Ástralskur trúarleiðtogi stunginn í miðri messu

Talið er að árásarmaðurinn hafi verið einn að verki en lögreglan þekkti til hans. Hann var þó ekki á neinum lista yfir þá sem þykja líklegir til að fremja hryðjuverk. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×