Erlent

Á­rásin virðist hafa beinst gegn konum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Cauchi virðist hafa einblínt á að meiða konur.
Cauchi virðist hafa einblínt á að meiða konur.

Lögregluyfirvöld í Sydney telja víst að árás manns sem stakk sex til bana í verslunarmiðstöð í borginni um helgina hafi beinst gegn konum.

Fimm af fórnarlömbunum voru konur en auk þess lést einn karlmaður í árásinni, það er öryggisvörður sem freistaði þess að stöðva árásarmanninn. 

Árásarmaðurinn var að lokum skotinn til bana af lögreglukonu, sem forsætisráðherra Ástralíu segir hafa sýnt sannkallaða hetjudáð þegar hún hljóp ein inn í verslunarmiðstöðina og stöðvaði manninn.

Árásarmaðurinn hét Joel Cauchi og var 40 ára gamall.

Faðir hans hefur greint frá því í fjölmiðlum að Cauchi hafi átt við andlega erfiðleika að stríða og nýlega hætt að taka lyfin sín. „Fyrir ykkur er hann skrýmsli. Fyrir mér var hann afar veikur drengur,“ sagði Andrew Cauchi.

Spurður að því hvers vegna sonur hans hefði beint sjónum sínum að konum sagði Andrew hann hafa langað í kærustu en skort félagslega færni og verið frústreraður vegna þessa.

Eitt fórnarlamba Cauchi, Ashlee Good, lést þegar hún freistaði þess að verja níu mánaða gamla dóttur sína frá Cauchi. Stúlkan særðist og þurfti að gangast undir aðgerð en er sögð á batavegi.

Fyrir utan þá sem léstust særðust tólf í árásinni sem þurfti að leggja inn á sjúkrahús. Fjórir hafa verið útskrifaðir en átta liggja enn inni, í mis alvarlegu ástandi.

BBC greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×