Erlent

Stranda­glópar kölluðu eftir hjálp með pálmablöðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Mennirnir fundust úr lofti.
Mennirnir fundust úr lofti. Strandgæsla Bandaríkjanna

Meðlimir Strandgæslu Bandaríkjanna björguðu í vikunni þremur mönnum sem voru strandaglópar á eyðieyju í miðju Kyrrahafinu. Mennirnir fundust eftir að áhöfn flugvélar sá pálmablöð sem þeir höfðu raðað í fjöru eyjunnar og notað til að skrifa „Help“ eða „Hjálp“.

Mennirnir höfðu siglt af stað frá Polowat-baugey á tuttugu feta bát með utanborðsmótor á páskadag, 31. mars, en lent í vandræðum á siglingunni. Þeir enduðu svo á hinni afskekktu Pikelot-baugey, sem er um hundrað sjómílur norðvestur af Polowat, en komust ekki þaðan vegna vélarvandræða.

Þegar engar fregnir bárust af þeim eftir nokkra daga leituðu ættingjar þeirra aðstoðar. Þann 6. apríl rataði aðstoðarbeiðni til Strandgæslu Bandaríkjanna. Mennirnir eru allir á fimmtugsaldri og með mikla reynslu af siglingum á svæðinu, samkvæmt tilkynningu á vef strandgæslunnar.

Upprunalega spannaði leitarsvæðið um 78 þúsund fersjómílur. Áhöfn P-8 Poseidon eftirlitsflugvélar kom þó auga á mennina þann 7. apríl. Þá höfðu þeir raðað pálmablöðum svo þau stöfuðu „Help“.

Áhöfnin kastaði birgða til mannanna úr lofti, svo þeir gátu lifað af þar til aðstoð barst, og einnig talstöð svo hægt væri að tala við það. Þeir voru við góða heilsu þar sem þeir höfðu boðað kókoshnetur og þeir höfðu einnig fundið sér ferskt vatn á eyjunni.

Skipið USCGC Oliver Henry var sent á vettvang og náði til mannanna þann 9. apríl og voru þeir fluttir aftur til Polowat.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×