Erlent

OJ Simpson er látinn

Samúel Karl Ólason skrifar
O.J. Simpson hefur verið tíður gestur í dómssal undanfarna áratugi.
O.J. Simpson hefur verið tíður gestur í dómssal undanfarna áratugi. Getty Images/Julie Jacobson

OJ Simpson, eða Orenthal James Simpson, er látinn, eftir nokkurra ára baráttu við krabbamein. Hann var 76 ára gamall en fjölskylda hans segir hann hafa látist í gær umkringdur börnum sínum og barnabörnum.

Simpson var á árum áður frægur íþróttamaður og spilaði amerískan fótbolta í NFL-deild Bandaríkjanna. Hann lék einnig í Naked Gun kvikmyndunum frægu en er í dag þekktastur fyrir allt annað.

Í yfirlýsingu sem fjölskylda hans birti í gær biðja þau um næði.

Árið 1994 var hann ákærður fyrir að stinga Nicole Brown Simpson, fyrrverandi eiginkonu sína og Ronald Goldman, vin hennar, til bana á heimili hennar í Los Angeles. Hann var þó sýknaður í dómsal ári síðar.

Lík Simpson og Goldman fundust fyrir utan heimili hennar þann 12. júní 1994 og lá Simpson strax undir grun. Fimm dögum síðar var gefin út handtökuskipun á hendur honum en í stað þess að gefa sig fram reyndi hann að flýja undan lögreglunni á hvítum Ford Bronco jeppa.

Árið 1997 höfðaði fjölskylda Goldman mál gegn Simpson þar sem hann var dæmdur til að greiða fjölskyldunni 33,5 milljónir dala í skaðabætur. Til að greiða þá upphæð neyddist Simpson til að selja verðlaunagripi sína og minjagripi.

Árið 2007 var hann svo dæmdur í 33 ára fangelsi fyrir rán. Þá notaði Simpson skotvopn til að ræna tvo minjagripasala í Las Vegas. Hann hélt því fram að hann hefði verið að reyna að ná aftur minjagripum sem hefði verið stolið af honum.

Hann afplánaði tæp níu ár af þeim dómi og var sleppt árið 2017.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×