Erlent

Vill herja á Trump vegna þungunarrofs

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden og starfsfólk framboðs hans sjá færi á Trump þegar kemur að deilum um rétt kvenna til þungunarrofs.
Joe Biden og starfsfólk framboðs hans sjá færi á Trump þegar kemur að deilum um rétt kvenna til þungunarrofs. AP

Miklar deilur mynduðust á þingi Arizona í Bandaríkjunum í gær þegar Repúblikanar komu í veg fyrir umræðu um að fella úr gildi 160 ára gömul lög um bann við þungunarrofi sem voru nýverið endurvakin af hæstarétti ríkisins. „Skömm, Skömm!“ var kallað í þingsalnum þegar umræðan var stöðvuð.

Hæstiréttur Arizona endurlífguðu fyrr í vikunni lög frá 1864 sem leggja nærri því algert bann við þungunarrofi og gera það mögulega glæpsamlegt svo hægt er að dæma lækna í allt að fimm ára fangelsi fyrir að framkvæma þungunarrof.

Einu undanþágurnar samkvæmt lögunum, sem samin voru þegar Abraham Lincoln var forseti Bandaríkjanna og konur höfðu ekki kosningarétt, eru í tilfellum þar sem þungunin ógnar lífi konu.

Sjá einnig: Lífguðu við meira en 160 ára gamalt þungunarrofsbann

Þingmenn Demókrataflokksins og minnst einn Repúblikani reyndu tvisvar að hefja umræðu um að fella lögin úr gildi en án árangurs.

Demókratar kölluðu þá á Repúblikana að þeir ættu að skammast sín en þrír Repúblikanar hafa lýst því yfir að þeir séu mótfallnir lögunum.

Ein þingkona Repúblikanaflokksins hélt því fram að ekki væri tilefni til að flýta umræðunni um lögin og sakaði Demókrata um að „öskra á okkur og grípa til öfgafullrar og uppreisnarlegrar hegðunar“ í þingsal.

Þá sagði hún málefnið vera flókið og tilfinningaþrungið. Hennar skoðun væri að það að „fjarlægja heilbrigð börn úr heilbrigðum mæðrum“ væri ekki heilbrigðisþjónusta. „Ólétta er ekki veikindi. Henni ber að fagna. Þungunarrof bindur enda á líf,“ sagði Teresa Martinez.

Þingkona Demókrataflokksins sagði ákvörðun hæstaréttar Arizona hafa verið öfgafulla og að verði lögin áfram í gildi sé ljóst að fólk muni deyja vegna þeirra.

Þungunarrof í deiglunni vestanhafs

Hæstiréttur Bandaríkjanna felldi árið 2022 úr gildi stjórnarskrárvarinn rétt kvenna til þungunarrofs. Síðan þá hafa Repúblikanar á ríkisþingum víðsvegar um Bandaríkin, og þá sérstaklega í sunnanverðum Bandaríkjunum, hert lög um þungunarrof mjög.

Í mörgum tilfellum hafa verið samþykkt lög sem gera þungunarrof ólöglegt eftir sex vikna meðgöngu. Margar konur vita ekki af því að þær séu óléttar á fyrstu sex vikunum.

Í kjölfarið hefur umræðan um þungunarrof vestanhafs orðið sífellt harðskeyttari og umfangsmeiri í pólitíkinni.

Þá hefur réttur kvenna til þungunarrofs verið skráður í stjórnarskrár nokkurra ríkja Bandaríkjanna, eins og Kaliforníu, Kansas, Kentucky, Michigan, Montana, Ohio og Vermont. Til stendur að reyna það sama í Arizona.

Aðgerðasinnar segjast hafa safnað rúmlega hálfri milljón undirskrifta fólks sem vilja halda atkvæðagreiðslu um að bæta slíku ákvæði við stjórnarskrá Arizona. Það er mun meira en til þarf til að bæta slíkri spurningu við kjörseðla í ríkinu.

„Donald Trump gerði þetta“

Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, hefur lýst því yfir að hann eigi heiðurinn að því hafa fellt rétt kvenna til þungunarrofs úr gildi, með því að skipa þrjá af níu dómurum Hæstaréttar Bandaríkjanna.

Trump hefur sagt að að hæstiréttur Arizona hafi gengið of langt og kallað eftir því að þingmenn breyti lögunum.

Joe Biden, forseti, ætlar að reyna að nýta sér umræðuna um þungunarrof í Bandaríkjunum fyrir kosningarnar í nóvember og herja á Trump. Framboð Bidens ætlar að vekja athygli á sögum kvenna sem takmarkað aðgengi að þungunarrofi hefur komið niður á, samkvæmt frétt Politico.

Fyrr á þessu ári birti framboð Bidens auglýsingu konu frá Texas. Hún var ólétt en fóstur hennar greindist með þrístæðu 18, en þá greinast þrír litningar þar sem ættu að vera tveir af litningapari 18, og var fóstrinu ekki hugað líf. Hún fékk þrátt fyrir það ekki að fara í þungunarof í Texas þar sem dómurum í hæstarétti ríkisins fannst þungun hennar ekki ógna lífi hennar nóg.

Texas er eitt af þeim ríkjum þar sem lög um þungunarrof voru hert verulega í kjölfar úrskurðar Hæstaréttar Bandaríkjanna frá 2022 þegar stjórnarskrárvarinn réttur kvenna til þungunarrofs var felldur úr gildi. Þá var konum í Texas ekki heimilt að gangast þungunarrof eftir að hjartsláttur fóstursins verður greinanlegur, sem gerist iðulega eftir um sex vikna meðgöngu.

Fyrr í þessari viku birti framboð Bidens svo aðra auglýsingu þar sem saga annarrar konu frá Texas var sögð. Amanda Zurawski segist hafa nærri því dáið vegna reglna Texas-ríkis, eftir að henni var meinað að fara í þungunarrof eftir að hún missti fóstrið eftir átján vikna meðgöngu.

Hún fékk ekki að fara í aðgerð til að fjarlægja fóstrið og fékk í kjölfarið sýkingu. Nokkrum dögum síðar endaði hún á gjörgæslu og lést hún næstum því vegna sýkingarinnar. Í auglýsingunni segir að sýkingin hafi mögulega valdið því að Zurawski geti ekki orðið ólétt aftur.

Auglýsingin endar á orðunum: „Donald Trump gerði þetta“.

Trump birti á dögunum ávarp á Truth Social, samfélagsmiðli sínum, þar sem hann laug því að allir lagafræðimenn, sama hvaða flokki þeir fylgdu, vildu losna við dómafordæmið sem tryggði rétt kvenna til þungunarrofs og stærði sig af því að hafa fellt Roe V. Wade, eins og dómafordæmið er kallað, úr gildi.

Hann hélt því einnig fram að þegar kæmi að þungunarrofi væru Demókratar öfgamennirnir. Laug hann því að þeir vildu leyfa konum að fara í þungunarrof alveg fram að fæðingu og þeir vildu meira að segja leyfa fólki að taka nýfædd börn af lífi.

„Það að gangast þungunarrof á síðustu mánuðum þungunar, og jafnvel aftökur eftir fæðingu, það er nákvæmlega það sem það er, barnið fæðist og barnið er tekið af lífi eftir fæðingu, er óásættanlegt og næstum allir eru sammála því," sagði Trump í áðurnefndu ávarpi.


Tengdar fréttir

Dómararnir virtust efast um rétt­mæti málsins gegn FDA

Dómarar við Hæstarétt Bandaríkjanna virðast hafa verulegar efasemdir um málflutning samtaka sem vilja að dómstóllinn felli úr gildi ákvarðanir Matvæla- og lyfjastofnunar Bandaríkjanna um að heimila notkun mifepristone.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×