Erlent

Norð­menn líta til dróna og geimferða

Samúel Karl Ólason skrifar
Síðustu kafbátaleitarvélinni af gerðinni P-3 Orion var flogið frá flugstöðinni í Andøya  síðasta sumar. Nú á að nota flugstöðina fyrir dróna og geimferðir.
Síðustu kafbátaleitarvélinni af gerðinni P-3 Orion var flogið frá flugstöðinni í Andøya síðasta sumar. Nú á að nota flugstöðina fyrir dróna og geimferðir. Norski herinn/Onar Digernes Aase

Ríkisstjórn Noregs hefur tilkynnt ætlanir um að hætta eigi við að loka herstöðinni í Andøya, eins og til stóð. Þess í stað á að fara í umfangsmikla fjárfestingu þar og þróa herstöðina sérstaklega fyrir notkun langdrægra dróna í samstarfi við geimferðastöð sem verið er að setja á laggirnar þar.

Herstöðin á að vera mikilvægur partur í ætlunum norska hersins í geimnum. Þá á einnig að halda herstöðinni og flugbrautum hennar við fyrir flugmenn bandalagsríkja Noregs, bæði á friðartímum og mögulegum stríðstímum.

Í tilkynningu á vef varnarmálaráðuneytis Noregs segir að keyptir verði langdrægir drónar með háþróuðum skynjurum, sem muni gera Norðmönnum kleift að vakta og stjórna hafsvæði þeirra í norðri.

Dróna þessa á að nota með P8 Poseidon flugvélum frá Evenes. Þær flugvélar eru meðal annars notaðir til kafbátaleitar og rafræns eftirlits. Slíkum flugvélum er einnig flogið frá Keflavíkurflugvelli.

Sjá einnig: Kanadamenn taka þátt í kafbátaleit frá Íslandi

Haft er eftir Bjørn Arild Gram, varnarmálaráðherra, í tilkynningunni að ríkisstjórn Noregs hafi skýr markmið varðandi það að auka mikilvægi Noregs varðandi eftirlit á Norðurslóðum. Herstöðin á að verða helsta þjálfunarstöðin í Noregi varðandi notkun dróna og er hún sögð mikilvæg Atlantshafsbandalaginu.

Norðmenn vonast einnig til þess að geimferðastöð sem verið er að koma á laggirnar í Andøya muni styðja við ætlanir norska hersins og bandamanna þeirra í geimnum. Til stendur að vinna með bandamönnum Noregs að því að því að byggja upp getu til að skjóta gervihnöttum á braut um jörðu frá geimferðastöðinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×