Viðskipti innlent

Ríkis­kaup lögð niður og verk­efnin flutt til Fjár­sýslunnar

Lovísa Arnardóttir skrifar
Sara Lind Guðbergsdóttir hefur verið forstjóri Ríkiskaupa frá því í apríl í fyrra. Til hægti á myndinni er svo fjármála- og efnahagsráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir.
Sara Lind Guðbergsdóttir hefur verið forstjóri Ríkiskaupa frá því í apríl í fyrra. Til hægti á myndinni er svo fjármála- og efnahagsráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir. Vísir/Vilhelm og Ívar Fannar

Leggja á niður Ríkiskaup og færa verkefni stofnunarinnar ýmist til sérstakrar starfseiningar eða ríkisaðila sem starfar á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra. Breytingin er liður í innleiðingu á breytingum á lögum um opinber innkaup.

Samkvæmt tillögu ráðherra verður starfsmönnum Ríkiskaupa boðið starf hjá Fjársýslunni en starf forstöðumanns Ríkiskaupa verður lagt niður. Núverandi forstjóri stofnunarinnar er Sara Lind Guðbergsdóttir og er sett til 31. mars á þessu ári. 

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt þessar breytingar til í frumvarpi sem er að finna í samráðsgátt. Þar kemur fram að breytingarnar megi rekja til heildarendurskoðunar sem gerð var á lögum um opinber innkaup árið 2015 og tók gildi árið 2016. 

Eftir að breytingarnar tóku gildi hefur komið í ljós, samkvæmt nýju frumvarpi ráðherra, að breyta þarf tilteknum ákvæðum til samræmis við tilskipunina þannig að tryggt sé að túlkun þeirra ákvæða sem koma fram í lögunum sé í samræmi við EES-rétt.

Draga úr gullhúðun

Með breytingum á lögunum verður jafnframt dregið úr séríslenskum reglum sem koma fram í lögunum en það er gjarnan nefnt gullhúðun. Þá er að lokum lagt til að Ríkiskaup verði lögð niður í núverandi mynd. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að stofnunin sé í dag frekar lítil og þar starfi 24 einstaklingar og að stofnunin, sem hefur verið starfrækt frá 1949, sé fjármögnuð bæði með framlögum úr ríkissjóði og með sértekjum.

„Um er að ræða litla einingu sem skortir slagkraft í stærri verkefni og áskoranir. Talið er nauðsynlegt að ráðast í breytingar á stofnanafyrirkomulagi laganna og gera það markvissara og sveigjanlegra í framkvæmd og að tryggja að til staðar sé öflugri þekkingarstofnun sem styður við hagkvæman ríkisrekstur og hafi aukna burði til að mæta stafrænni umbreytingu og gagnavinnslu. Á grundvelli heimilda sem er að finna í frumvarpi þessu er áformað að færa verkefni Ríkiskaupa til Fjársýslu ríkisins sem er þjónustu- og þekkingarstofnun á sviði opinberra fjármála,“ segir í greinargerðinni þar sem ítarlega er farið yfir núverandi hlutverk og skipulag Fjársýslu ríkisins.

Með sameiningu verkefna er talið að hægt sé að tryggja betri skilvirkni og bæta innkaup ríkisins enn frekar. Hjá Fjársýslu ríkisins séu innviðir og þekking til staðar til að gera það.

„Fjársýslan býr nú þegar yfir gögnum, innviðum og þekkingu til að bæta innkaup ríkisins enn frekar og talsverð tækifæri eru til staðar til að nýta núverandi kerfi til að auka sýnileika og aga á útgjöldum stofnana á sviði innkaupa. Hjá flestum ríkisaðilum eru almenn innkaup á ábyrgð fjármálasviðs viðkomandi stofnunar og eru þessi aðilar nú þegar í virku þjónustusambandi við Fjársýsluna. Með sameiningu innkaupaverkefna og annarrar fjármálaumsýslu skapast tækifæri til bættrar þjónustu, fræðslu og upplýsingagjafar. Markmiðið með þessari breytingu er að til verði öflugur þjónustumiðaður kjarni með áherslu á gagnadrifna ákvörðunartöku, skýra ferla og virka upplýsingagjöf.“

Frestur til sunnudags

Frumvarpið var sett inn í samráðsgátt stjórnvalda í upphafi vikunnar en hægt er að skila inn umsögnum til 17.mars, eða á sunnudag. Þegar fréttin er skrifuð er búið að skila inn einni umsögn frá Bandalagi háskólamanna. 

Þar er aðallega fjallað um réttindi starfsfólks Ríkiskaupa sem á að bjóða starf hjá Fjársýslu ríkisins. Segir í umsögninni að eitthvað hafi borið á áhyggjum hjá starfsfólki um áunninn réttindi og framtíð þeirra hjá nýrri stofnun. Hvatt er til þess að fjallað sé um breytingarnar á skipulagðan hátt svo að fólk geti tekið upplýsta ákvörðun um framtíð sína. Hægt er að kynna sér málið betur hér. 


Tengdar fréttir

Guð­mundur hættir aftur hjá Bónus

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, hefur óskað eftir því að láta af störfum hjá félaginu frá og með áramótum. Hann hefur gegnt starfinu síðan árið 1998, 25 ár. Björgvin Víkingsson, aðstoðarframkvæmdastjóri og innkaupastjóri Bónus hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra og tekur við um áramótin.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×