Viðskipti innlent

„Það hefur ná­kvæm­lega enginn komið að máli við mig“

Árni Sæberg skrifar
Magnús lætur gott heita hjá Símanum eftir tíu ár í starfi.
Magnús lætur gott heita hjá Símanum eftir tíu ár í starfi. Síminn

Magnús Ragnarsson, fráfarandi framkvæmdastjóri miðla hjá Símanum, segir góðan tímapunkt að hætta núna eftir tíu ár í starfi og gott að hætta á eigin forsendum. Þá segir hann engan hafa komið að máli við hann varðandi neitt framboð.

Síminn tilkynntu um það í dag að Magnús hefði óskað eftir að láta af störfum hjá Símanum. Í samtali við Vísi segir hann að hann hafi einfaldlega ákveðið að láta gott heita.

„Ég er akkúrat núna búinn að vera í tíu ár hjá Símanum í þessu rönni, ég var náttúrulega áður hjá Símanum 2004 til 2007. Þetta eru komin tíu ár núna og held að það sé ágætur tími og ég er búinn að ná öllum mínum persónulegu markmiðum. Nú er bara kominn tími til að hleypa einhverri ferskri hugsun að.“

Veit ekkert hvað tekur við

Miðað við ákvörðun Magnúsar um að hætta í starfi núna lá beinast við því að spyrja hann að því hvort hann væri nokkuð að máta sig við embætti forseta, sem losnar í sumar. 

„Það hefur ekkert hvarflað að mér og mun ekki hvarfla að mér. Það hefur nákvæmlega enginn komið að máli við mig varðandi það embætti. Þannig að það er eins skýrt nei og það getur orðið,“ segir Magnús og skellihlær.

Hann segir að hann verði Símanum innan handar val fram eftir ári að ganga frá nokkrum samningum og breytingaverkefnum. Svo muni hann byrja að líta í kringum sig með hækkandi sól.

„Svo er mjög gott að fara út á eigin forsendum. Klopp og Guðni voru góðar fyrirmyndir í þessu,“ segir Magnús og vísar til óvæntra tilkynninga þeirra Jürgens Klopp og Guðna Th. Jóhannessonar um að þeir ætluðu að láta gott heita eftir tímabilið sem líður. Klopp er fráfarandi þjálfari enska stórliðsins Liverpool og Guðni er fráfarandi forseti Íslands.

Aldrei að vita hvað gerist á fjölmiðlamarkaði

Þá segir Magnús að hann muni fylgjast spenntur með því sem gerist á fjölmiðlamarkaði á næstu misserum, enda telji sviptingar í kortunum þar.

„Ég tel þetta verði eins og flest ár, að það verði einhverjar miklar sviptingar þar.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×