Neytendur

Verð­bólga haldi á­fram að hjaðna

Bjarki Sigurðsson skrifar
Landsbankinn í Hafnarfirði.
Landsbankinn í Hafnarfirði. VÍSIR/VILHELM

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að verðbólga hjaðni úr 6,7 prósent í 6,1 prósent í febrúar. Þrátt fyrir það hækki vísitala neysluverðs um 0,89 prósent en veruleg hækkun febrúar á síðasta ári, 1,4 prósent, veldur því að ársverðbólgan lækkar. 

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá bankans. Það sem mun hafa mest áhrif til hækkun vísitölunnar eru útsölulok en einnig hafa gjaldskrárhækkanir á sorphirðu, fráveitu og köldu vatni áhrif á hækkunina.

Skýring Seðlabankans á hvað verðbólga er:

Verðbólga er skilgreind sem viðvarandi hækkun almenns verðlags og er mæld sem tólf mánaða breyting vísitölu neysluverðs. Sú vísitala mælir meðalverð á vörum og þjónustu sem heimili á Íslandi kaupa í hverjum mánuði. Verðbólga felur í sér að verðgildi og kaupmáttur peninga minnkar, þ.e.a.s. minna magn vöru og þjónustu fæst fyrir hverja krónu.

Því er spáð að reiknuð húsaleiga hækki í febrúar en flugfargjöld til útlanda lækki og verði stærsti áhrifaþátturinn sem vegur á móti hækkunum. 

„Hafa ber í huga að ýmsir stórir óvissuþættir gætu haft áhrif á verðmælingar næstu mánuði, ekki síst framvinda í kjaraviðræðum sem virðist takmörkuð um þessar mundir. Þótt verðbólguspálíkan okkar taki tillit til launabreytinga er erfitt að ákvarða áhrifin af þeim þegar jafnmikil óvissa ríkir um launaþróun og nú,“ segir í Hagsjánni. 

Hér fyrir neðan má sjá rit um þróun vísitöluneysluverðs í febrúar síðustu ár. 

Það mun draga úr verðhækkunum á mat samkvæmt spá bankans en verð á mat hækkar um 0,2 prósent milli mánaða. Mesta hækkunin á matarverði var í janúar á síðata ári þegar hún nam tæpum tveimur prósentum. 

„Við gerum ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,89% í febrúar, 0,64% í mars, 0,18% í apríl og 0,28% í maí. Gangi spáin eftir verður verðbólga 6,1% í febrúar, 6,2% í mars, 5,0% í apríl og 4,9% í maí. Mánaðarbreytingar á vísitölu neysluverðs voru miklar í febrúar og apríl í fyrra og þar sem við spáum nú minni hækkunum en þá, lækkar árstakturinn töluvert þá mánuði. Fyrstu dagar páskanna í ár verða í mars og við gerum ráð fyrir að páskahækkun á flugfargjöldum mælist í mars og lækki á móti í apríl,“ segir í Hagsjánni. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×