Innlent

Ís­land frystir greiðslur og kallar eftir ítar­legri rann­sókn

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur óskað eftir því að ítarleg rannsókn verði gerð á ásökunum á hendur nokkrum starfsmönnum Sameinuðu þjóðanna.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur óskað eftir því að ítarleg rannsókn verði gerð á ásökunum á hendur nokkrum starfsmönnum Sameinuðu þjóðanna. Vísir/Egill

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra hefur kallað eftir ítarlegri rannsókn á ásökunum á hendur nokkrum starfsmönnum Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna. Ísland sé nú í samráði við önnur Norðurlönd um næstu skref og greiðslur til stofnunarinnar verði frystar þar til að samráði loknu.

Þetta kom fram í færslu sem enski rekningur utanríkisráðuneytisins birti í gær.

Í gær var haft eftir yfirmanni stofnunarinnar að yfirvöld í Ísrael hafi lagt fram gögn sem bendla tólf starfsmenn stofnunarinnar við árásir Hamas-samtakanna á Ísrael þann sjöunda október á síðasta ári, þar sem tólf hundruð manns týndu lífi og 250 voru teknir í gíslingu.

Í yfirlýsingu Bjarna segir að ásakanirnar séu alvarlegar og að rannsaka þurfi málið í kjölinn. Skjót viðbrögð stofnunarinnar í málinu séu vel metin, og að mikilvægt starf hennar verði að halda áfram í erfiðum aðstæðum.

RÚV greinir frá því að stjórnvöld hafi tekið ákvörðun um að frysta greiðslur til Palestínuflóttamannaaðstoðarinnar þar til rannsókn hefur farið fram. Þetta sé gert í samvinnu við Norðurlönd. 

Stjórnvöld í Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada, Finnlandi og Hollandi hafa tilkynnt að þau ætli að gera slíkt hið sama.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna bendlaðir við árásirnar 7. október

Yfirmaður Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) segir yfirvöld í Ísrael hafa útvegað stofnuninni gögn sem bendli starfsmenn hennar við árásir Hamas-samtakanna á Ísrael þann 7. október. Um er að ræða tólf starfsmenn sem Philippe Lazzarini, yfirmaður UNRWA, segir að hafi verið reknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×