Erlent

„At­lants­hafs­banda­lagið er dautt“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þrátt fyrir öll hans lagalegu vandræði er Trump enn líklegastur til að hljóta útnefningu Repúblikana fyrir forsetakosningarnar.
Þrátt fyrir öll hans lagalegu vandræði er Trump enn líklegastur til að hljóta útnefningu Repúblikana fyrir forsetakosningarnar. AP/Carolyn Kaster

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og núverandi forsetaframbjóðandi, er sagður hafa sagt við Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, að Atlantshafsbandalagið væri „dautt“.

Þá er hann einnig sagður hafa sagt að Bandaríkin myndu aldrei koma Evrópu til aðstoðar.

Ummælin féllu á efnahagsráðstefnunni í Davos (e. World Economic Forum) árið 2020, að sögn Thierry Breton sem fer með málefni innri markaðar Evrópusambandsins í framkvæmdastjórninni.

„Þú þarft að skilja að ef Evrópa sætir árás þá munum við aldrei koma og styðja ykkur,“ á Trump að hafa sagt, að því er Breton sagði í Evrópuþinginu. Þá á hann einnig að hafa sagt: „Og Nató er dautt og við munum fara, við munum hætta í Nató“.

Þá á Trump einnig að hafa sagt að Þýskaland skuldaði honum 400 milljarða dala, þar sem þeir hefðu þurft að leggja til varnarmála ef ekki væri fyrir Bandaríkin.

Trump daðraði oft við það í stjórnartíð sinni að hóta því að Bandaríkin færu úr Nató og þá lýsti hann oft aðdáun sinni á Vladimir Pútín Rússlandsforseta, sem hann sagði skilja vel. Trump hefur einnig gefið í skyn að Pútín hefði ekki ráðist inn í Úkraínu ef hann hefði náð endurkjöri.

Breton er sagður hafa varað við því í Brussel að Trump gæti snúið aftur og að aðildarríki Nató þyrftu að vera undir það búin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×