Handbolti

Stelpurnar okkar tryggja sér úr­slita­leik á móti Kongó vinni þær í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kongókonur urðu í þriðja sæti í síðustu Afríkukeppni.
Kongókonur urðu í þriðja sæti í síðustu Afríkukeppni. Getty/Ingrid Anderson-Jensen

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mætir Kongó í úrslitaleik Forsetabikarsins vinni þær leik sinn á móti Kína á HM í kvöld.

Þetta varð ljóst eftir að Kongó vann 24-21 sigur á Síle í hreinum úrslitaleik um sigurinn í hinum riðli Forsetabikarsins.

Síle var í frábærum málum í leiknum í dag en liðið var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 12-8.

Sílekonur voru líka fimm mörkum yfir, 16-11, þegar aðeins tuttugu mínútur voru eftir.

Kongókonur skoruðu þá sex mörk mörk einu, jöfnuðu metin í 17-17, og tryggðu sér síðan sigurinn með því að vinna síðustu níu mínúturnar 6-2.

Kongó vann síðustu tuttugu mínútur leiksins 13-5. Fanta Diagouraga skoraði öll fimm mörkin sín í leiknum á þessum lokamínútum eða jafnmikið og allt lið Síle.

Úrslitaleikur Forsetabikarsins fer fram á miðvikudagskvöldið en það er jafnfram leikur um 25. sætið á mótinu. Það lið sem vinnur leik Íslands og Kína seinna í dag kemst í þann leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×