Handbolti

Ómar Ingi skaut Evrópu­meisturunum á­fram eftir víta­keppni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ómar Ingi spilaði hvað stærstan þátt í sigri kvöldsins.
Ómar Ingi spilaði hvað stærstan þátt í sigri kvöldsins. EPA-EFE/Piotr Polak

Evrópumeistarar Magdeburgar eru komnir í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu eftir sigur á Kielce frá Póllandi í hádramatískum leik. Ómar Ingi Magnússon tók síðasta vítakastið og tryggði Magdeburg sæti í undanúrslitum.

Kielce vann fyrri leik liðanna og því var ljóst að Evrópumeistararnir þurftu að sýna betri frammistöðu á heimavelli. Það gekk ekki framan af fyrri hálfleik en gestirnir þá með yfirhöndina.

Ómar Ingi jafnaði metin í 9-9 þegar tíu mínútur voru til loka fyrri hálfleiks en Haukur Þrastarson var meðal þeirra sem sá til þess að gestirnir leiddu með tveimur mörkum er flautað var til hálfleiks, staðan 11-13.

Ómar Ingi skoraði tvö fyrstu mörk síðari hálfleik og leikurinn jafn. Þannig var hann næstu mínútur. Janus Daði Smárason kom inn af krafti og skoraði tvívegis þegar Magdeburg skoraði þrjú mörk í röð. Breyttu þeir stöðu leiksins þá úr 18-19 í 21-19 og aðeins níu mínútur eftir.

Gríðarlega lítið var skorað á síðustu mínútum leiksins en Igor Karačić minnkaði muninn í 23-22 fyrir gestina þegar vel rúmlega mínúta var til leiksloka. Hvorugu liðinu tókst að skora og því þurfti að grípa til vítakeppni þar sem staðan var jöfn í einvíginu, 49-49.

Þar reyndist Ómar Ingi hetja heimamanna þegar hann skoraði úr síðasta vítakastinu og Magdeburg vann leikinn 27-25 að lokinni vítakeppni. 

Evrópumeistararnir hafa þannig tryggt sér sæti í undanúrslitum og mæta annað hvort Barcelona eða París Saint-Germain í undanúrslitum. Börsungar leiða með átta mörkum eftir fyrri leik liðanna.

Ómar Ingi skoraði 6 mörk og gaf eina stoðsendingu í leiknum á meðan Janus Daði skoraði 2 mörk og gaf 2 stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson gaf 3 stoðsendingar á meðan Haukur Þrastarson skoraði 3 mörk í liði Kielce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×