Erlent

Við­ræður Pútín og Kim hafnar og „allt á borðinu“

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Greint hefur verið frá því að Pútín vonist eftir að fá vopn hjá Norðurkóreumönnum og Kim eftir því að fá erlendan gjaldeyri frá Rússum.
Greint hefur verið frá því að Pútín vonist eftir að fá vopn hjá Norðurkóreumönnum og Kim eftir því að fá erlendan gjaldeyri frá Rússum. epa/Sputnik/Mikhail Metzel

Formlegar viðræður Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og Kim Jong-un leiðtoga Norður-Kóreu hófust í morgun í geimferðamiðstöðinni í Amur í Rússlandi, þar sem Soyuz geimflaugunum er skotið á loft.

Kim ferðaðist til austurhluta Rússlands í brynvarðri lest og með í för eru valdamiklir menn á borð við yfirmann hersins og yfirmann skotfæraframleiðslu landsins en talið er að Pútín sækist eftir samningi um kaup á skotfærum frá Norður-Kóreu. 

Þá er systir einræðisherrans einnig með í för en Kim Yo Jong er sögð afar valdamikil í landinu. 

Við upphaf fundarins þakkaði Kim Pútín kærlega fyrir höfðinglegar móttökur og sagðist viss um að Rússland og Norður-Kórea myndu halda áfram baráttu sinni gegn heimsvaldastefnu, eins og hann orðaði það. 

Pútín sagði við blaðamenn fyrir fundinn að allt væri upp á borðum og að ekkert viðfangsefni yrði undanskilið á fundinum. Eitt staðfest umræðuefni eru þó gervihnettir en talið er að Norður-Kóreumenn sækist eftir aðstoð Rússa við að koma upp eigin kerfi gervihnatta. 

Rétt áður en fundurinn hófst skutu Norður-Kóreumenn tveimur eldflaugum á loft líkt og þeir hafa gert reglulega undanfarin misseri. Og Rússar gerður í nótt drónaárásir á borgina Odeshchyna þar sem sjö eru sagðir hafa særst. 

Úkraínska varnarmálaráðuneytið segir að 32 af 44 Shahed-drónum hafi verið grandað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×