Tíu leikmenn Liverpool kláruðu Bournemouth

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mohamed Salah skoraði annað mark Liverpool í dag.
Mohamed Salah skoraði annað mark Liverpool í dag. George Wood/Getty Images)

Liverpool vann sinn fyrsta leik á tímabilinu er liðið tók á móti Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Eftir vandræðagang í upphafi leiks snéru leikmenn Liverpool leiknum sér í hag og unnu 3-1 sigur, þrátt fyrir að vera manni færri seinasta hálftíman.

Gestirnir í Bournemouth byrjuðu af miklum krafti og strax á fyrstu mínútu var Jaidon Anthony búinn að koma boltanum í netið. Eftir skoðun myndbandsdómara kom þó í ljós að Anthony var rangstæður og markið því réttilega dæmt af.

Gestinrir voru þó ekki lengi að hrista af sér svekkelsið því aðeins þremur mínútum síðar nýttu þeir sér vandræðagang í vörn Liverpool og Antoine Semenyo skoraði fyrsta löglega mark leiksins.

Heimamenn vöknuðu hægt og rólega til lífsins eftir markið og á 28. mínútu jafnaði Luis Diaz metin fyrir Liverpool með snyrtilegri afgreiðslu eftir stoðsendingu frá Diogo Jota. 

Um það bil sjö mínútum síðar fengu þeir svo vítaspyrnu þegar brotið var á Dominik Szoboszlai á vítateigshorninu. Mohamed Salah steig á punktinn og lét verja frá sér, en tók sjálfur frákastið og kom Liverpool í forystu fyrir hálfleikshléið.

Heimamenn hertu tökin enn frekar í síðari hálfleik og virtust alltaf líklegri til að bæta við. Það fór þó ekki betur en svo að Alexis Mac Allister fékk að líta beint rautt spjald á 58. mínútu fyrir brot á Ryan Christie og þeir rauðklæddu þurftu því að leika síðasta hálftíma leiksins manni færri.

Þeir létu það þó ekki á sig fá og bættu við þriðja markinu stuttu síðar þegar Diogo Jota var fyrstur á lausan bolta í teignum eftir fyrirgjöf frá Szoboszlai og þar við sat.

Niðurstaðan því 3-1 sigur Liverpool sem nú er með fjögur stig eftir tvo fyrstu leiki tímabilsins. Bournemouth er hins vegar enn í leit að sínum fyrsta sigri, en liðið er með eitt stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira